Körfubolti

Jón Arnór: Lið sem henta okkur ekkert sérlega vel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson segir að íslenska landsliðsins bíði erfitt verkefni á EM í körfubolta á næsta ári.

„Það var nú markmiðið að vinna leik á þessu móti. Þetta var brekka í Berlín og þeir eru ekkert að gera okkur auðvelt fyrir. Þetta er sterkur riðill og þetta verður áhugavert,“ sagði Jón Arnór í samtali við Arnar Björnsson.

Ísland lenti í riðli með Póllandi, Grikklandi, Frakklandi, Finnlandi og Slóveníu. Jón Arnór segir að þessir andstæðingar henti Íslendingum ekki vel.

„Þetta er gríðarlega sterkur riðill eins og í fyrra. Þessi lið henta okkur ekkert sérlega vel. En þetta eru stór nöfn sem gerir þetta enn skemmtilegra. Þetta eru allt lið sem spiluðum ekki við í fyrra þannig það er gaman að fá að spreyta sig á móti nýjum liðum,“ sagði Jón Arnór sem kveðst hlakka til að spila við Frakkland og Grikkland sem eru stórar körfuboltaþjóðir.

Jón Arnór segist alveg hafa þegið auðveldari riðil á EM sem fer fram í fjórum löndum: Finnlandi, Ísrael, Rúmeníu og Tyrklandi. Riðill Íslands fer fram í Helsinki.

„Jájá, auðvitað hefði maður viljað fá lið sem eru kannski í einum styrkleikaflokki fyrir neðan. En þetta er bara gaman, við erum svo jákvæðir og ánægðir með þetta allt saman þannig við erum bara spenntir,“ sagði Jón Arnór að endingu.


Tengdar fréttir

Logi: Fengum flest góðu liðanna

Logi Gunnarsson fylgdist með drættinum fyrir EM 2017 í höfuðstöðvum KKÍ í dag ásamt félögum sínum í íslenska körfuboltalandsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×