Erlent

Obama krefst rannsóknar á netárásum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Barack Obama.
Barack Obama. Vísir/Getty
Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur óskað eftir rannsókna á netárásum sem skóku forsetakosningarnar vestanhafs fyrr á árinu. Um er að ræða árásir á tölvupósta Demókrataflokksins og John Podesta, kosningastjóra Hillary Clinton. Einnig var átt við kjósendaskrár í Illinois og Arizona.

Í október síðastliðnum gáfu yfirvöld í Bandaríkjunum út að þau teldu Rússa hafa haft afskipti af kosningunum.

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur sagt að hann trúi því ekki að Rússar hafi átt í hlut. Hann telur jafnframt að ásakanir á hendur Rússa séu gerðar af pólitískum ástæðum.

Áður hafði Trump hvatt Rússa til að „finna“ tölvupósta Clinton, en eftir að þau ummæli ollu hneykslan sagði hann að um kaldhæðni hafi verið að ræða.

Demókratar hafa hins vegar haldið því fram að árásirnar hafi verið til þess gerðar að grafa undan kosningabaráttu Clinton.

„Forsetinn vill að rannsóknin sé gerð í hans tíð því hann tekur þessu mjög alvarlega,“ sagði Eric Schultz, talsmaður Hvíta hússins.

„Við erum staðráðin í að ganga úr skugga um réttmæti kosninganna.“

Rannsóknin verður ítarleg og verður meðal annars litið á aðferðirnar sem notast var við sem og viðbrögð yfirvalda vestanhafs. Gert er ráð fyrir að rannsókninni ljúki áður en Obama lætur af embætti í janúar, en ekki er vitað hvort að niðurstaðan verði gerð opinber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×