Handbolti

Serbar byrja vel á EM kvenna í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hin hollenska Danick Snelder fær hér óblíðar móttökur í leiknum.
Hin hollenska Danick Snelder fær hér óblíðar móttökur í leiknum. Vísir/AFP
Serbía og Holland fögnuðu sigri í fyrstu leikjum dagsins á EM kvenna í handbolta sem stendur nú yfir í Svíþjóð. Þetta var annar sigur Serba á mótinu en fyrsti sigur Hollendinga.

Serbía vann tveggja marka sigur á Spáni í A-riðli, 25-23, og Holland vann níu marka sigur á Pólland í B-riðli, 30-21.

Serbnesku stelpurnar hafa þar með unnið tvo fyrstu leiki sína á mótinu en Serbía vann tveggja marka sigur á Slóveníu í fyrsta leik. Serbneska liðið hefur endað í 15. sæti á síðustu tveimur stórmótum sínum (EM 2014 og HM 2015).

Holland tapaði á móti Þýskalandi í fyrsta leik og þetta var því fyrsti sigur hollensku stelpnanna á Evrópumótinu. Hollenska liðið kom mörgum á óvart með því að komast alla leið í úrslitaleikinn á HM í fyrra en liðið varð í sjöunda sæti á EM fyrir tveimur árum.

Pólland og Spánn eiga það aftur á móti sameiginlegt að vera bæði stigalaust á botni sinna riðla.

Serbía var þremur mörkum yfir í hálfleik, 11-8, en vann síðan fyrstu fimm mínútur seinni hálfleiksins 6-1 og gerði með því nánast út um leikinn. Spánverjar gáfust ekki upp og komu með sá spennu í leikinn með því að skora þrjú mörk í röð í lokin. Serbarnir héldu út og fögnuðu sigri.

Katarina Krpez Slezak var markahæst hjá Serbum með sex mörk og Jovana Stoiljković skoraði fimm mörk.

Hollendingar voru einnig þremur mörkum yfir í hálfleik, 11-8, en þær hollensku voru síðan komnar í 17-9 eftir aðeins fimm mínútna leik í þeim seinni. Góð byrjun á seinni hálfleiknum braut niður pólska liðið sem tapaði seinni hálfleiknum 16-10.

Lois Abbingh var markahæst hjá Hollendingum með fimm mörk en þær Debbie Bont og Michelle Goos skoruðu báðar fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×