Fyrstu tölur benda til þess að áhorfið á UFC 207 á næstsíðasta degi ársins hafi verið mjög gott þó svo það hafi verið mikil samkeppni í sjónvarpinu.
Það var mjög stór leikur í háskólaruðningnum, Orange Bowl, á milli Michigan og Florida State á sama tíma en slíkir leikir fá gríðarlegt áhorf í Bandaríkjunum.
Fyrri hluti kvöldsins, prelims, er í opinni dagskrá á Fox en það þarf að greiða sérstaklega fyrir að sjá aðalhlutann í svokölluðu Pay Per View.
Rúmlega 1,5 milljón horfðu á fyrri hluta kvöldsins þar sem aðalbardaginn var á milli Johny Hendricks og Neil Magny. Það er fjórða besta áhorfið á Fox á árinu. 11,4 milljónir horfðu á Orange Bowl á sama tíma.
Mun fleiri konur horfðu á bardagana en venjulega og ljóst að Ronda Rousey dró marga kvenmenn að tækinu.
Ekki liggur fyrir hversu margir greiddu fyrir að sjá aðalbardagana en líklega keyptu yfir milljón Bandaríkjamenn sér aðgang til þess að sjá Rondu keppa og tapa á 48 sekúndum.

