Handbolti

Stjarnan kláraði Selfoss í seinni hálfleik | Ellefu sigrar í röð hjá Fram

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir skoraði níu mörk fyrir Stjörnuna.
Rakel Dögg Bragadóttir skoraði níu mörk fyrir Stjörnuna. vísir/stefán
Rakel Dögg Bragadóttir átti sannkallaðan stórleik í öruggum sigri Stjörnunnar 31-23 á Selfyssingum í TM-Höllinni í Olís-deild kvenna en eftir jafnræði framan af fór sóknarleikur Garðbæinga á flug og skilaði sigrinum  í seinni hálfleik.

Leikurinn var jafn framan af og leiddi Stjarnan 13-12 í hálfleik en í seinni hálfleik settu Garðbæingar í fluggír og unnu að lokum átta marka sigur 31-23. Var þetta fjórði sigur Stjörnunnar í röð en þær eru áfram xxxx.

Rakel Dögg var atkvæðamest í liði Stjörnunnar með níu mörk en Helena Rut Örvarsdóttir bætti við fimm mörkum fyrir Stjörnuna. Í liði Selfyssinga var það Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sem var markahæst með tólf mörk en aðrir leikmenn náðu sér ekki á strik.

Í Safamýrinni vann Fram ellefta leik sinn í röð í nágrannaslagnum gegn Val 24-21 en sigur Fram þýðir að Valskonur eru komnar ellefu stigum á eftir toppliðinu eftir þrettán umferðir.

Góður varnarleikur Framara í fyrri hálfleik gaf þeim fjögurra marka forskot inn í hálfleikinn í stöðunni 12-8 en þær héldu forskotinu allt til loka leiksins.

Ragnheiður Júlíusdóttir var líkt og oft áður markahæst í liði Fram með átta mörk en í liði Valskvenna var það Kristín Guðmundsdóttir sem var markahæst með fjögur mörk.

Það fer fram heil umferð í dag en umferðinni lýkur með leikjum Hauka og ÍBV annarsvegar og leik Fylkis og Gróttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×