„Þetta er áfall fyrir mig þar sem mig langar auðvitað að vera upp á mitt besta allt þetta ár út af EM. Eitt af markmiðum mínum var að vera heilsuhraust og klár í slaginn strax á nýju ári,“ segir Dagný við Vísi.
Miðjumaðurinn marksækni var meidd í öxl á síðasta ári og meiddist svo í hné undir lok árs en var búin að ná sér og ætlaði að byrja 2017 með stæl. Það gekk ekki alveg eftir.
„Ég fékk slæma flensu og lá í tvær vikur. Ég gat svo ekki byrjað að æfa eftir það því þá kemur þessi útbungun í bakinu í ljós. Ég hef ekki komist á heila fótboltaæfingu síðan um miðjan janúar sem er leiðinlegt því ég ætlaði að nota janúar og febrúar til að æfa aukalega áður en ég færi til Algarve,“ segir Dagný sem er í kapphlaupi við tímann ætli hún með til Portúgal á árlega æfingamótið.
„Við förum út 26. febrúar þannig þetta er ekki langur tími. Það var bara verið að greina mig á mánudaginn. Það var ekki hægt á meðan ég var veik. Svo þegar ég fór að finna fyrir þessu hélt ég að þetta væri bara eitthvað í vöðvunum eftir veikindin.“

Meiðslin voru það alvarleg að Dagný fann til þegar hún labbaði en nú er hún öll að koma til. Hún tekur á því í ræktinni til að koma sér í stand en er á eftir áætlun miðað við það sem hún ætlaði sér að gera.
„Ég má gera allt svo lengi sem ég finn ekki til en maður er svo geðveikur að maður heldur alltaf áfram eins og ég gerði áður en ég vissi hvað þetta var. Mér var alveg drullu illt í þessu bara þegar ég labbaði en þetta er orðið betra núna,“ segir Dagný.
Rangæingurinn er ekki að missa af neinu hjá landsliðinu eða félagsliði sínu Portland Thorns þar sem hún á ekki flug til móts við hópinn fyrr en eftir Algarve-mótið.
Lykilmenn íslenska landsliðsins eru sumir að glíma við erfið meiðsli en Margrét Lára Viðarsdóttir var í aðgerð á dögunum og þá er Hólmfríður Magnúsdóttir fótbrotin. Þó meiðsli Dagnýjar séu ekki jafn alvarleg hefur allt svona mun meiri áhrif á stelpurnar þar sem 2017 er EM-ár.

„Mín meiðsli eru bara smávægileg miðað við Hólmfríðar en alveg sama hversu stórt eða lítið þetta er þá er svona mikil vonbrigði. Ég æfði eins og ég veit ekki hvað í nóvember og desember. Ég var að æfa með karlaliði Selfoss og að taka aukaæfingar og svo lyfta þrisvar sinnum í viku,“ segir Dagný.
„Auðvitað vill maður nýta hvern einsta dag og hverja einustu stund á svona ári. Vonandi næ ég mér bara sem allra fyrst. Það er mánuður farinn í súginn og þegar maður er svona æfingasjúk þá er þeta erfitt,“ segir Dagný sem ætlaði að byrja árið á betri hátt en raun ber vitni.
„Markmiðið var að byrja árið með stæl en fyrst veikist ég og svo meiðist ég. Árið 2017 er ekki alveg að byrja eins og ég vildi. Það horfir samt til betri vegar núna og verið allt annað síðan ég vissi um hvað var að ræða,“ segir Dagný Brynjarsdóttir.