Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur í dag rætt við fjóra einstaklinga sem koma til greina sem næsti ráðgjafi hans í þjóðaröryggismálum. Michael Flynn sagði af sér sem ráðgjafi Trump í síðustu viku eftir að upp komst um samskipti hans við Rússa.
John Bolton, fyrrverandi sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum er á meðal umsækjenda auk þriggja fyrrum hershöfðingja en það eru H.R McMaster, Robert Caslen og Keith Kellogg. Sá síðastnefndi gegnir tímabundið stöðu ráðgjafa Trump í þjóðaröryggismálum.
Robert Harward var fyrsta val forsetans. Harward hafnaði boðinu vegna persónulegra og fjárhagslegra aðstæðna, að sögn talsmanna Hvíta hússins. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum segja þó að aðalástæðan hafi verið sú að hann hafi viljað koma með eigið starfslið í Hvíta húsið sem hafi ekki verið í boði.
Þá kom David Patraeus, fyrrverandi hershöfðingi og yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, jafnframt til greina, en ekki er vitað hvers vegna hann er ekki á meðal umsækjenda.
Michael Flynn sagði af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi eftir að upp komst að hann hefði logið að varaforsetanum Mike Pence um samskipti sín við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum áður en hann tók við stöðu ráðgjafa forseta.
Trump ræðir við næsta ráðgjafa sinn í þjóðaröryggismálum
Tengdar fréttir

Harward hafnar boði um að verða þjóðaröryggisráðgjafi Trump
Talsmaður Hvíta hússins segir að Robert Harward hafi afþakkað boðið af persónulegum og fjárhagslegum ástæðum.

Trump kennir fjölmiðlum um afsögn þjóðaröryggisráðgjafa
Öldungadeildarþingmenn bæði Repúblikana og Demókrata í Bandaríkjunum þrýsta á að að ítarleg rannsókn fari fram á samskiptum fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump forseta og annarra starfsmanna framboðs hans við rússnesku leyniþjónustuna.

Spurt og svarað um samskipti Flynn og Rússa
Þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta sagði af sér fyrr í vikunni vegna samskipta sinna við fulltrúa rússneskra stjórnvalda.