Malasíska lögreglan handtók í gærkvöldi norðurkóreskan ríkisborgara í tengslum við morðið á Kim Jong-nam, hálfbróður einræðisherrans Kim Jong-un. Um er að ræða fjórðu handtökuna í tengslum við málið en Kim Jong-nam var myrtur á flugvelli fyrr í vikunni.
Maðurinn heitir Ri Jong Chol og er 46 ára, en hann er fyrsti norðurkóreski ríkisborgarinn sem er handtekinn vegna málsins. Tvær konur eru í haldi lögreglu, önnur frá Indónesíu og hin frá Víetnam. Malasískur kærasti þeirrar síðarnefndu er jafnframt í haldi.
Óstaðfestar fregnir herma að sú indónesíska hafi sagt lögreglu að hún hafi talið sig vera að taka þátt í sjónvarpsþætti þar sem hún hafi átt að hrekkja manninn, að því er greint er frá á vef breska ríkisútvarpsins. Hún hafi jafnframt fengið greitt fyrir „hrekkinn“.
Talið er líklegt að konurnar séu útsendarar Norður-Kóreustjórnar og að mennirnir tveir séu samverkamenn þeirra. Þær eru sagðar hafa sprautað eitri í vit mannsins þar sem hann var á flugvellinum í Kuala Lumpur að bíða þess að komast um borð í flugvél á leið til Macau.
Kim Jong-nam var í litlu sambandi við fjölskyldu sína, sérstaklega eftir að faðir hans, Kim Jong-il, tók yngri hálfbróður hans fram yfir hann þegar hann útnefndi eftirmann sinn á valdastóli.
Fjórða handtakan vegna morðsins á Kim Jong-nam

Tengdar fréttir

Grunuð um að myrða Kim Jong-nam: Hélt hún væri að taka þátt í sjónvarpshrekk
Indónesísk kona sem handtekin var í vikunni, grunuð um að myrða Kim Jong-nam, hálfbróður Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, var talið trú um að hún væri að taka þátt í grínþætti í sjónvarpi með því að hrekkja fólk.

Önnur kona handtekin vegna morðsins á Kim Jong-nam
Krufningu á líkinu er lokið en niðurstöður hennar hafa þó ekki verið gerðar opinberar.

Uppreisnargjarni glaumgosinn Kim Jong-nam
Kim Jong-nam var vafalaust ætlað leiðtogahlutverki í Norður-Kóreu. Hann var hins vegar ráðinn af dögum af útsendurum Norður-Kóreustjórnar fyrr í vikunni.

Suður-Kóreustjórn staðfestir að hálfbróðir Kim Jong-un hafi verið drepinn
Starfandi forseti Suður-Kóreu segir að ef í ljós komi að Norður-Kóreustjórn beri ábyrgð á árásinni myndi það varpa ljósi á "hrottalegt og ómanneskulegt“ eðli hennar.