Handbolti

Engin núverandi landsliðskona komst í úrvalslið íslenska kvennahandboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Systurnar Hrafnhildur Skúladóttir og Dagný Skúladóttir eru báðar í úrvalsliðinu.
Systurnar Hrafnhildur Skúladóttir og Dagný Skúladóttir eru báðar í úrvalsliðinu. Vísir/Pjetur
Landsliðskonurnar Rakel Dögg Bragadóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir og Karen Knútsdóttir eru meðal þeirra sem komust ekki í úrvalslið íslenska kvennahandboltans.

Úrvalslið Íslands í handbolta kvenna frá upphafi handboltans til dagsins í dag hefur verið valið en Morgunblaðið fékk fólk úr handboltahreyfingunni til að velja bestu handboltakonur allra tíma á Íslandi.

Kristján Jónsson hélt utan um valið og segir frá úrvalsliðinu í Morgunblaðinu í dag.

Aðeins tveir leikmenn í liðinu eru enn að spila, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Hanna Guðrún Stefánsdóttir en þær voru hvorugar þó með í síðustu verkefnum íslenska landsliðsins.

Fjórir leikmanna úrvalsliðsins voru aftur á móti í liðinu sem tryggði Íslandi í fyrsta skipti sæti á stórmóti á EM 2010.

Tveir leikmenn íslenska landsliðsins í dag, þær Karen Knútsdóttir og Rut Jónsdóttir, voru nálægt því að komast inn. Karen fékk flest atkvæði sem leikstjórnandi en vinstri skyttan Guðríður Guðjónsdóttir fékk fleiri heildaratkvæði og var sett inn á miðjuna.

Guðríður og Hrafnhildur Skúladóttir fengu báðar fleiri atkvæði en Karen og voru því báðar í úrvalsliðinu. Hrafnhildur er markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi og Guðríður er sigursælasta handboltakona Íslands.

Hrafnhildur er ekki sú eina úr fjölskyldunni sem er í liðinu því Dagný Skúladóttir systir hennar er í vinstra horninu. Dagný og hinn hornamaður úrvalsliðsins, Hanna Guðrún Stefánsdóttir, fengu báðar glæsilega kosningu eins og kemur fram í veglegri opnugrein í Morgunblaðinu í dag.



Úrvalslið íslenska kvennahandboltans frá upphafi:

Markvörður: Kolbrún Jóhannsdóttir

Vinstra horn: Dagný Skúladóttir

Vinstri skytta: Hrafnhildur Skúladóttir

Leikstjórnandi: Guðríður Guðjónsdóttir

Hægri skytta: Ragnheiður Stephensen

Hægra horn: Hanna Guðrún Stefánsdóttir

Línumaður: Guðný Gunnsteinsdóttir

Varnarmaður: Anna Úrsúla Guðmundsdóttir

Næstar því að komast inn samkvæmt upptalinu í grein Morgunblaðsins:

Karen Knútsdóttir, leikstjórnandi

Florentina Stanciu, markvörður

Rut Jónsdóttir, hægri skytta

Ramune Pekarskyte, vinstri skytta




Fleiri fréttir

Sjá meira


×