Innlent

Hlutverk presta minnki: Hjónavígslur og nafngiftir verði færðar til borgaralegra embættismanna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Steinunn Þóra Árnadóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Steinunn Þóra Árnadóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Sex þingmenn Vinstri grænna og Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela dómsmálaráðherra að flytja hjónavígsluréttindi og skráningu nafngifta alfarið til borgaralegra embættismanna. Steinunn Þóra Árnadóttir, Vinstri græn, er fyrsti flutningsmaður.

Í gegnum tíðina hafa slík verk fallið innan verksviðs presta þjóðkirkjunnar, fríkirkjusafnaða og forystufólks annarra trúfélaga. Með breytingunni er lagt til að ætíð þurfi að leita til embættismanna til að fá vígslu eða skrá nöfn ungbarna. Hverjum og einum sé heimilt að fá blessun trúfélags æski hann þess en slíkur gjörningur hefði eigi lagalegt gildi.

„Sú óvissa sem ríkir um „samviskufrelsi“ presta er óþægileg fyrir samkynja pör og aðstandendur þeirra, auk þess sem hún stríðir gegn hugmyndum fjölda fólks um jafnan rétt til þjónustu opinberra embættismanna og vernd borgaranna gegn mismunun,“ segir í greinargerð með ályktuninni.

Til að breytingin nái fram að ganga þarf að gera breytingar á fjölda laga, þar á meðal hjúskapar- og mannanafnalögum. Lagt er til að vinnu við breytingarnar verði lokið fyrir 1. október 2017.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×