Skoðun

Fékk ekki fund með forsetanum

Tinna Brynjólfsdóttir skrifar
Ég ákvað að senda forsetanum línu því hann á víst að vera svo mikið til í að hitta og spjalla við fólkið sitt í landinu.

Ósk um fund með forseta

Sæll Guðni

Er einhver möguleiki að þú eigir lausar mínútur á næstunni til að spjalla við mig um málefni sem brennur mér á hjarta? Þetta snýst um alvarleg mannréttindabrot og spillingu af hálfu hins opinbera. Ég er löngu orðin ráðþrota og því leita ég til þín.

Svar forseta!!!!

Sæl Tinna,

þakka þér fyrir skeytið. Í mínu embætti er mér ekki heimilt að hlutast til um málefni einstaklinga sem telja á sér brotið í stjórnkerfinu. Ég get bent á það sem betur má fara en þá verð ég að tala á almennum nótum, ekki með því að skipta mér af einstökum málum. Miðað við beiðni þína sé ég þess vegna ekki að fundur myndi verða skynsamlegur eða skila miklu.

Þar höfum við það

Þarna sjáum við úr hverju Guðni er gerður. Hann vill ekki einu sinni vita hvað ég hef að segja!  Ég er ekki að biðja hann um að gera neitt eða „hlutast til um“ eitt né neitt. Hefði haldið að það væri gagnlegt fyrir hann að heyra um hvað málið snýst. Það sem hann blessaður hefur tekið sér fyrir hendur hingað til er nú ekki beint allt mjög skynsamlegt eða að skila miklu. Helsta viðfangsefni okkar nýja leiðtoga alla daga virðist vera að líta vel út á samfélagsmiðlum, hann virðist algjörlega velja sér verkefnin með það eitt í huga.

Mér finnst að forseti Íslands eigi ekki að skauta fram hjá mikilvægum málum af því þau henta honum ekki.

Mér finnst að hann eigi að vera alvöru leiðtogi sem lætur sig mannréttindi varða og þorir að beita sér fyrir betra samfélagi.

Höfundur er tveggja barna móðir og kona manns og föður sem situr saklaus í fangelsi.




Skoðun

Sjá meira


×