Erlent

Lætur misheppnaðar eldflaugatilraunir ekki á sig fá

Anton Egilsson skrifar
Sérfræðingar í Bandaríkjunum telja að Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, láti ekki bilbug á sér finna þrátt fyrir misheppnaðar eldflaugatilraunir að undanförnu. NBC fjallar um þetta.

Nú síðast á miðvikudag skutu yfirvöld í Norður-Kóreu eldflaug á loft en hún sprakk skömmu eftir flugtak. Telja sérfræðingar að þrátt fyrir hina misheppnuðu tilraun muni það ekki koma til með að fá Kim Jong-Un af því yfirlýsta markmiði sínu að framleiða kjarnorkuvopn sem landið gæti beitt á Bandaríkin.

Sjá: Enn eitt eldflaugaskotið frá Norður-Kóreu

„Ólíklegt er að þessar misheppnuðu tilraunir fái Kim Jong-Un af áætlunum sínum í kjarnorkumálum,“ segir Fraser Cameron, forstöðumaður EU-Asia Center. 

Reyna að fá Norður-Kóreu af kjarnorkuáætlun sinni

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í síðustu viku að hernaðaraðgerðir sé einn af þeim möguleikum sem komi til greina þegar kemur að hvernig skuli eiga við stjórnvöld í Norður-Kóreu.

Ráðherrann sagði að núverandi stefna, þar sem viðskiptaþvingunum hafi verið beitt gegn ríkinu um langt skeið, hafi ekki skilað tilætluðum árangri.  Væru Bandaríkin því að leita nýrra leiða til að fá Norður-Kóreumenn til að hverfa frá kjarnorkuáætlun sinni.

Sameinuðu þjóðirnar hafa meinað Norður-Kóreu að gera tilraunir með eldflaugar eða kjarnorkuvopn, en þrátt fyrir það hefur ríkið gert ítrekaðar tilraunir með eldflaugar og sprengt minnst fimm kjarnorkusprengjur á síðustu árum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×