Stjarnan heldur í við topplið Fram þegar skammt er eftir af Olís-deild kvenna en eins marka sigur Garðbæinga 24-23 gegn ÍBV þýðir að Stjarnan er áfram aðeins tveimur stigum á eftir Fram þegar tvær umferðir eru eftir.
Eftir sigur Fram í Valshöllinni í gær máttu Garðbæingar varla við því að misstíga sig í baráttunni um deildarmeistaratitilinn. Þrátt fyrir það voru það Eyjakonur sem voru með frumkvæðið framan af og náðu þegar mest var þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik og leiddu 9-8 í hálfleik.
Leikurinn snerist í seinni hálfleik, Stjarnan jafnaði fljótlega metin og hélt forskotinu nánast allan seinni hálfleikinn en ÍBV tókst að jafna metin skömmu fyrir leikslok í stöðunni 23-23 en Stjarnan átti eina góða lokasókn eftir.
Náðu þær að skora sigurmarkið þegar tuttugu sekúndur voru eftir á klukkunni en lokasókn ÍBV skilaði ekki marki og fögnuðu Stjörnukonur því kærkomnum sigri sem þýðir að það gæti enn farið svo að Stjarnan mæti Fram í hreinum úrslitaleik upp á deildarmeistaratitilinn í lokaumferðinni.
Helena Rut Örvarsdóttir var atkvæðamest í liði Stjörnunnar með sex mörk en Sólveig Lára Kjærnested og Hanna G. Stefánsdóttir bættu við fimm mörkum hvor. Í liði ÍBV voru það sandra Dís Sigurðardóttir og Ester Óskarsdóttir sem voru markahæstar með fimm mörk.
Í seinni leik dagsins tóku ríkjandi deildar- og Íslandsmeistarar Gróttu á móti vængbrotnum Selfyssingum sem léku án bestu skyttu sinnar, Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttur og unnu góðan fimm marka sigur.
Líkt og fjallað var um á Vísi fyrr í vikunni sleit Hrafnhildur Hanna krossband í æfingarleik íslenska landsliðsins á dögunum og hefur hún því lokið leik á þessu ári.
Jafnræði var með liðunum framan af og leiddu Seltirningar með einu marki í hálfleik í stöðunni 9-8 en í seinni hálfleik settu þær í gír og kláruðu gestina á heimavelli og komust um leið upp í fjórða sæti Olís-deildarinnar.
Laufey Ásta Guðmundsdóttir var markahæst í liði Gróttu með fimm mörk en í liði Selfyssinga voru það Kristrún Steinþórsdóttir og Dijana Radojevic sem voru atkvæðamestar með sex mörk hvor.
Stjörnukonur halda í við Fram | Grótta upp í fjórða sætið
Kristinn Páll Teitsson skrifar

Mest lesið





„Held áfram nema ég verði rekinn“
Körfubolti

Mateta líður vel þrátt fyrir tæklingu í andlitið
Enski boltinn

Borche: Dómararnir sjá það sem þeir sjá
Körfubolti

Kári: Bara negla þessu niður
Körfubolti

