Vefmiðillinn Vísir er 19 ára – hann á eitt ár til góða af táningaaldrinum. Vísir hefur vaxið jafnt og þétt á þessum tíma og er nú einn helsti og mikilvægasti fjölmiðill landsins. En, það hefur gengið á ýmsu og í upphafi átti netblaðamennskan við talsverðan trúverðugleikavanda að stríða. Netið var nýstárlegt og netblaðamennska var hálfgert ómark. Eins og þessi saga, sem er saga fólksins á Vísi, á meðal annars eftir að leiða í ljós. Því fjölmargir hafa komið við sögu á þessum miðli sem nú „rúlar“ á fréttamarkaði á Íslandi, svo vitnað sé í einn viðmælandann. En hér verður einkum og sér í lagi rætt við fólkið á gólfinu sem veit hvað klukkan slær. Fjölmiðlar að breytast hratt Netmiðlarnir hafa gerbreytt fjölmiðlalandslaginu og í raun blaðamennskunni sem fagi; öll lykilhugtök sem skilgreina fjölmiðla eru í lausu lofti. Með netinu og samfélagsmiðlum, þegar hver og einn getur sett opinberlega fram það sem honum sýnist, hafa fjölmiðlar glatað hliðvörsluhlutverki sínu. Þeir ákvarða ekki lengur hvað heyrir til opinberrar birtingar. Deila má um hvort eigendur fjölmiðla sem og fagfélagið Blaðamannafélag Íslands hafa haldið í við þá þróun með nauðsynlegum endurskilgreiningum á helstu hugtökum og uppfærslu á ritstjórnarstefnu, verklags- og siðareglum. Þróunin hefur reyndar verið hröð á allra síðustu árum þegar samfélagsmiðlarnir láta stöðugt meira að sér kveða; fjölmiðlar eru í mikilli deiglu, sem aldrei fyrr. Vísir hefur frá öndverðu verið hugsaður þannig að þar sé nýjustu fréttir að finna, ritaðar af sjálfstæðri ritstjórn en vefurinn er jafnframt fréttaveita fyrir hefðbundnari miðla. Nú vinnur vefurinn í nánu samstarfi við Fréttablaðið og svo ljósvakamiðla 365 svo sem Stöð 2 og Stöð 2 Sport, auk Bylgjunnar, FM957 og X-ins. Stökkbreyting fyrir blaðamenn Fyrir reynda blaðamenn, þá sem starfað hafa á prentmiðlunum, er þetta stökkbreyting. Að þurfa ekki að bíða eftir því að fréttirnar fari í gegnum próförk, umbrot, prentun og dreifingu – þær birtast umsvifalaust og hraðinn er mikill. Og netið er óseðjandi skrímsli. Ýmislegt í vinnubrögðunum sjálfum breytist jafnframt og óhjákvæmilega. Sem dæmi má nefna að með tenglum er hægt að brúa bil, koma í veg fyrir skalla í frásögninni, meðan þeir sem skrifa fréttir í prentmiðla geta ekki gengið að fyrirframgefinni þekkingu lesenda. Og þannig má lengi áfram telja. Vísi ýtt úr vör af miklum metnaði Vísi var ýtt úr vör af miklum metnaði og með bravúr árið 1998. Halldór Blöndal, þá samgönguráðherra, opnaði vefinn við sérstaka athöfn í Borgarleikhúsinu. Sá sem stjórnaði þessu var Ásgeir Friðgeirsson, þá forstöðumaður nýmiðlunardeildar Frjálsrar fjölmiðlunar, sem var útgefandi Vísis. Auk þess sem sjálfstæð ritstjórn var mynduð um fréttaskrif birtust þar fréttir blaðamanna á DV, Degi og Viðskiptablaðinu. Ásgeir sá þetta fyrir sér sem víðan vettvang viðskipta(frétta) og sem skemmtitorg þar sem finna mætti allar helstu upplýsingar um hvað væri á döfinni hverju sinni. „Það sem tölvutæknin hefur umfram hefðbundna fjölmiðla er fyrst og fremst gagnvirknin sem býður fólki upp á mun meiri þátttöku í því sem er að gerast. Þá er tölvutæknin opin í báða enda ef svo má að orði komast. Það er hægt að setja inn nýtt efni og taka eldra efni út hvenær sem er og almenningur getur komið inn á vefinn hvenær sem er sólarhringsins,“ sagði Ásgeir þá í samtali við DV. Kjartan Hreinn Njálsson, fréttamaður Stöðvar 2 (áður á Vísi), ræddi við Ásgeir um Vísi – en ítarlegri umfjöllun Kjartans um Vísi mun birtast í fréttatíma Stöðvar 2 á mánudag. Eins og áður sagði, þá hugsaði Ásgeir vefinn ekki sem fréttaveitu heldur sá Vísi fyrir sér sem miklu umfangsmeira fyrirbæri sem nærðist á gagnvirkni. Vel að merkja, þetta er löngu fyrir tíma Facebook, þannig að Ásgeir var á undan Mark Zuckerberg að sjá fyrir möguleika netsins. En, allt er þetta spurning um tímasetningar. Í upphafi hélt Vísir úti Vísisauganu sem gekk út á það að notendur gátu kíkt út á lífið um helgar, með því að fylgjast með á Vísi, en verið samt heima. Eilítið eins og Stuðmenn sungu forðum í laginu Í stórum hring á móti sól: „Við sitjum á sama stað, en erum samt að ferðast.“ Ásgeir hafði að mörgu leyti rétt fyrir sér þótt hann hafi ef til vill verið á undan sinni samtíð: Í dag nýta netmiðlar texta, hljóð og mynd í fréttaflutningi sínum. Beinar útsendingar eru reglulegar á Vísi, alltaf þegar tilefni gefast til. Vísir vöðvastæltari nú en þá Vísir vildi í árdaga láta að sér kveða í skemmtanalífinu, vera þátttakandi og áhorfandi í senn. Raunveruleikaþættinum „Hiti 98“ var ýtt úr vör en þá voru sex ungir Íslendingar sendir til Ibiza þar sem þeir skemmtu sér saman í einni íbúð í tvær vikur. Þátttakendurnir héldu dagbók og greindu lesendum Vísis og hlustendum FM957 frá öllu dramanu, ástinni og örlögunum sem á daga þeirra drifu í lastabælinu Ibiza. Meðal fyrstu blaðamanna á Vísi er Þórarinn Þórarinsson, sem þarna hóf skrautlegan feril sinn en hann átti eftir að starfa á mörgum helstu fjölmiðlum landsins. „Ég byrjaði í blaðamennsku á Vísi.is sumarið 1999 og ber því eðlilega alltaf hlýjar tilfinningar til miðilsins. Vefurinn var rétt um það bil eins árs þegar Ásgeir Friðgeirsson réð mig. Þarna voru bara tveir alvöru fréttamiðlar til, Mbl.is og Vísir.is og við settum markið hátt strax þarna og ætluðum okkur að komast yfir Moggann í aðsókn. Það bar að vísu helvíti mikið á milli og þetta var fjarlægt takmark sem Vísir.is hefur náð af og til í seinni tíð, enda vefurinn talsvert vöðvastæltari nú en þá,“ segir Þórarinn. Jaxlarnir lágu á skúbbum sínum eins og ormar á gulli Og, það er rétt. Mbl.is náði ákveðnu forskoti strax í upphafi netmiðlunar sem miðillinn hefur haldið fast um. Það er ekki fyrr en nú á allra síðustu vikum og mánuðum sem Vísir hefur náð að jafna metin. Mbl.is nýtur þess meðal annars að fjölmargir eldri netnotendur halda bókstaflega að gáttin að internetinu sé mbl.is – sú er upphafssíðan. Mbl.is hefur farið ofurvarlega, með hraða snigilsins, í allar breytingar því menn þar vita að maðurinn er dýr vanans. Vísir hefur hins vegar farið öllu brattar í breytingar alla tíð og verið ólíkt djarfari í þeim efnum. Nýr Vísir í dag er til marks um það. Þórarinn segir að netblaðamennskan hafi átt við trúverðugleika að stríða og því fögnuðu Vísismenn þegar fréttir hans af því að þingmenn reyktu inni í þinghúsinu í sérstöku reykherbergi rötuðu í aðra miðla. Sérstakur bónus var svo að Halldór Blöndal, þá forseti Alþingis, varð saltvondur.vísir/eyþór Þórarinn segir svo frá að ritstjórnin hafi verið til húsa í gamla Hampiðjuhúsinu sem nú heyrir sögunni til. „Við vorum þrjú í blaðamennskunni, ég, Íris Björg Kristjánsdóttir og Auður Aðalsteinsdóttir, og gengum vaktir sem stóðu frá 7 að morgni til 23 um kvöldið. Þarna áttu þeir feðgar Sveinn og Eyjólfur DV og Vísi.is þannig að blaðið var í raun eini bakhjarl okkar með fréttir. Þess vegna sat alltaf eitt okkar í litlu horni á ritstjórn DV í Þverholtinu. Ásgeir lagði mikla áherslu á að við næðum fréttum úr blaðinu sem fyrst inn á vefinn en þar var oftast við ramman reip að draga og gamlir jálkar eins og Eiríkur Jónsson, Garðar Örn Úlfarsson og Reynir Traustason lágu á skúbbum sínum eins og ormar á gulli.“ Hver sekúnda er deddlæn Þarna var fólk enn að tala um netið sem bólu og þessir vefmiðlar þóttu varla marktækir. „Reynir Trausta var fréttastjóri DV þarna og var helvíti nískur á fréttir blaðsins sem þá kom út eftir hádegi þannig að upp úr ellefu var maður farinn að betla fréttir en togarajaxlinn lét mann alveg heyra það að „blaðið er númer eitt, tvö og þrjú“, vefurinn ræki svo lestina. Kallinn er að vísu löngu búinn að hugsa þetta upp á nýtt og við áttum löngu seinna gott samstarf þegar við skutum DV.is upp Modernus-listann.“ Þórarinn segir svo frá að Ásgeir hafi keyrt Vísi.is áfram af miklum metnaði. „Hérna er hver sekúnda deddlæn.“ Og: „Skrifaðu kjarna fréttarinnar í fyrstu setningunni. Engar menntaskólaritgerðir. Bara to the fucking point.“ „Þetta voru fyrstu lexíurnar mínar. Einfaldar og skýrar. Ásgeir lagði einnig ofuráherslu á að vefurinn væri snyrtilegur og villulaus. Það þurfti ekki nema eina innsláttarvillu og þá hringdi hann um hæl og blés hressilega á mann. Það var ekkert pláss fyrir „fréttabörn“ þarna í árdaga netfréttanna. Og auðvitað mættu ritstjórar netmiðlanna í dag taka Ásgeir sér til fyrirmyndar.“ Furðulegt að vera hornreka Þórarinn segir að þegar hugsað sé til baka megi furðu sæta að netmiðlarnir hafi einhvern tíma verið hornkerlingar á markaðnum. Ásgeir lagði mikið upp úr því að Vísir tæki forystu í fréttamálum og Vísir.is þannig stimplaður inn sem alvöru miðill. „Ég man að við áttum góðan sprett þegar Orca-hópurinn keypti Fjárfestingabanka atvinnulífsins við lítinn fögnuð Davíðs Oddssonar. Þetta var samt svolítið svona prívat sigur okkar í litlu loftbólunni okkar og sprakk ekki út annars staðar en á vefnum. Hins vegar fögnuðum við ógurlega þegar fréttir mínar af því að þingmenn reyktu inni í þinghúsinu í sérstöku reykherbergi rötuðu í aðra miðla. Sérstakur bónus var svo að Halldór Blöndal, þá forseti Alþingis, varð saltvondur. En dropinn holar steininn og nú rúlar Vísir.is að sjálfsögðu á fréttamarkaðnum.“ Ásgeir yfirgaf vefinn nokkrum mánuðum eftir að Þórarinn byrjaði þar, í kjölfar þess að Eyþór Arnalds kom með fulla vasa fjár sem forstjóri Íslandssíma og fékk Ásgeir til þess að stjórna vefgáttinni Strik.is. „Sem endaði sem ekta netbóludæmi og sprakk. Góð pæling sem var aðeins á undan samtíma sínum. Eiríkur Hjálmarsson tók við ritstjórninni af Ásgeiri og sá vaski útvarpsmaður og krimmahöfundur Ævar Örn Jósepsson bættist síðan í hópinn. Um svipað leyti tók stórvinkona mín Helga Ólafsdóttir að sér að þróa undirvefinn Spegilinn sem er líklega einn fyrsti „konuvefurinn“ á Íslandi.“ Prentsmiðjurnar skópu trúverðugleikann Stuttu síðar kippti Ásgeir Þórarni yfir á Strikið og leiðir Þórarins og Vísis skildi í bili. En leiðirnar áttu eftir að liggja saman á ný. „Eftir Striks-ævintýrið réð ég mig inn á hið nýstofnaða Fréttablað sem hafði þá leyst DV af sem hryggjarstykkið í fréttaflutningi Vísis og þá var nú öldin önnur. Blaðið ókeypis og ekkert verið að liggja á fréttum og svelta vefinn þannig að við Freyr Bjarnason, varnarjaxl úr FH og nú blaðamaður á Mogganum, höfðum ekki undan að dæla fréttum blaðsins á vefinn. Fréttablaðið tútnaði svo út, rústaði Mogganum og allt í einu vorum við orðin að fjölmiðlarisa í Skaftahlíð þar sem Vísir eignaðist bakland í Fréttablaðinu og fréttastofum Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Eigum við ekki bara að segja að the rest is history og að það hafi verið gaman að taka þátt í að skrifa hana. Á Vísi.is. Síðasta verkefni mitt á Vísi var að skóla ungan rauðhærðan grænjaxl til sem síðar varð ofurfréttamaðurinn Brynjólfur Þór Guðmundsson,“ segir Þórarinn. Þóri leist vel á fjölmiðlarisann Rauði þráðurinn í endurminningum Þórarins er sú að netblaðamennskan hafi átt erfitt uppdráttar í árdaga. Líkast til að vonum. Fólk tók ekki mark á fréttum nema það væri búið að keyra þær í gegnum prentsmiðjurnar. Jón Hákon segir það hafa verið gríðarlega mikla upplifun fyrir óreyndan blaðamann að fá að vinna með manni eins og Óla Tynes, en nefnir líka Gissur Sigurðsson, Kristján Má Unnarsson og Heimi Má Pétursson.visir/ernir Þetta má einnig greina í frásögn Jóns Hákons Halldórssonar, sem kallaður er fjölmiðlarisinn og stendur vel undir þeirri nafngift – í öllum skilningi. Hann byrjaði á Vísi í júní árið 2007 og starfaði þar allt til ársins 2013. Hann yfirgaf Vísi, tók til starfa á Viðskiptablaðinu en kom fljótlega aftur í Skaftahlíðina og hóf þá störf á Fréttablaðinu. Þegar Jón Hákon hóf störf á Vísi höfðu orðið umskipti á eignarhaldi og Vísir var kominn undir hatt fjölmiðlafyrirtækisins 365. „Ég hafði tekið hagnýta fjölmiðlun og sótti upphaflega um hjá Fréttablaðinu. Ég sótti um sumarstarf og Þóri Guðmundssyni, þáverandi ritstjóra Vísis, leist nógu vel á mig til að ráða mig í sumarstarf.“ Mikið mannval á Vísi Þegar Jón Hákon mætti til starfa á Vísi var þar fyrir á fleti mikið mannval: Jónas Haraldsson, Höskuldur Kári Schram, Gunnar Reynir Valþórsson, Óli Tynes, Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir, Sigríður Guðlaugsdóttir og Björn Gíslason. „Og ég og sportararnir. Ég man nú ekki alveg hvað þeir voru margir. Friðrik Indriðason og Andri Ólafsson byrjuðu svo þar síðla sumars.“ Í raun hefur þú feril þinn í blaðamennsku á netmiðli? „Já, ég gerði það. Það var mögnuð upplifun. En mjög mikil áskorun. Að mörgu leyti held ég að netfréttamennskan sé erfiðari heldur en önnur fréttamennska. Hvergi eru meiri kröfur um hraða og maður þurfti alltaf að treysta á eigin íslenskukunnáttu því að við vorum ekki með prófarkalesara þá frekar en nú eins og gerist og gengur á prentmiðlunum.“ Vísir hefur vaxið verulega Jón Hákon segist ekki hafa farið varhluta af því að netblaðamennskan og netmiðlarnir hafi verið einhvers konar afgangsstærð hjá eigendum/Blaðamannafélaginu. „Ekki bara eigendum, heldur fyrirtækinu í heild. Á þeim tíma þótti ekki eins fínt að vera í netblaðamennsku og á dagblaði eða í sjónvarpi. Viðhorfið er allt gjörbreytt núna og Vísir hefur vaxið gríðarlega mikið.“ Svo ferð þú úr netblaðamennskunni og yfir á prentmiðil. Hvernig er sú upplifun, að þurfa að bíða eftir prentsmiðjunni? „Það hefur sína kosti og sína galla. Oft er gott að geta vandað sig við fréttina, fréttaöflunina og frágang. En hættan er auðvitað sú að netmiðlarnir séu búnir að segja fréttina þegar blaðið kemur út.“ Er það ekki óbærileg staða? „Nei, ef mér þætti það væri ég nú kominn aftur á netið. En auðvitað skiptir máli hvernig maður hugsar fréttina.“ Aðrir miðlar kepptust við að afsanna fréttina Blaðamennska er lifandi starf og kannski bjánalegt að spyrja svona en … er eitthvert atvik öðrum minnisstæðara? Jón Hákon segir eitt og annað í frásögur færandi. Til dæmis … „… þegar Óskar Hrafn Þorvaldsson var ritstjóri Vísis kom hann til mín einn daginn og sagðist hafa heyrt að Ólafur F. Magnússon ætlaði að kljúfa borgarstjórnarmeirihlutann og mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Við sögðum fréttina snemma um morguninn og hún kom eins og þruma úr heiðskíru lofti inn í íslenskt samfélag. Allan daginn voru aðrir miðlar að keppast við að afsanna fréttina, meira að segja miðlar innan 365, en svo kom í ljós upp úr klukkan fimm þann daginn að fréttirnar sem við höfðum sagt á Vísi af borgarstjórnarmeirihluta í burðarliðnum voru alveg hárréttar.“ Saknar Óla Tynes En ekki hvað? Nú varst þú að vinna með þjóðsagnapersónum í blaðamennskunni eins og Óla Tynes, manninum sem fann upp Hafnarfjarðarbrandarana … það hefur væntanlega haft þau áhrif að þú skrifaðir fyrirsagnir sem teljast ódauðlegar í sögu Vísis svo sem „Lífshættulegt fyrir kjúklinga að fara í sláturhús“ og „Búið að bjarga kjúklingunum – eru á leið í sláturhús“? „Það var gríðarlega mikil upplifun fyrir óreyndan blaðamann að fá að vinna með manni eins og Óla Tynes, en ég nefni líka Gissur Sigurðsson, Kristján Má Unnarsson og Heimi Má Pétursson. Þeir kenndu manni mikið, bæði varðandi fyrirsagnir og annað. Óli og Gissur tuktuðu mann oft til ef þeim leist ekki á það sem maður var að gera og Gissur er reyndar ennþá að. Ég hugsa reglulega til Óla og sakna hans mikið.“ Byrjaði á Vísi á dramatísku tímabili Einn af þekktari blaðamönnum landsins er Erla Hlynsdóttir, en þrisvar hefur Mannréttindadómstóll snúið dómum Hæstaréttar gegn henni. Erla byrjaði á Vísi haustið 2010 en færði sig svo yfir á Stöð 2 eftir um það bil ár. Erla segir að netblaðamaðurinn sé alltaf í vinnunni og henni er minnisstætt þegar fjöldamorðin voru framin í Útey og hún í sumarfríi, ekki var annað hægt en greina frá því sem hún vissi inn á Vísi.visir/eyþór Þegar hún kom á Vísi voru þar fyrir menn svo sem Gunnar Reynir Valþórsson, Friðrik Indriðason ... „og Boði Logason, sem er ein uppáhaldsmanneskjan mín í öllum heiminum. Svo man ég eftir slatta af fólki sem stoppaði mjög stutt við svo sem Birkir Blær sem er held ég núna á RÚV, en hann var um tíma í krakkasjónvarpinu; Salóme Gunnarsdóttir leikkona, Magnús Már Guðmundsson borgarfulltrúi Samfylkingarinnar var þegar ég byrjaði en hætti fljótlega...“ Talsverð læti voru í lífi Erlu þá er hún byrjaði á Vísi. „Ég var á DV og fór í fæðingarorlof í árslok 2009. Skömmu áður en ég átti að koma aftur neitaði stjórn DV að borga einhverjar 200 þúsund krónur sem ég var dæmd til að greiða vegna meiðyrða, og ég bara hætti. Karen Kjartansdóttir, sem þá var á Stöð 2, hafði verið að hvetja mig til að koma yfir á 365 og ég kom bara beint úr fæðingarorlofi á Vísi. Þetta var eiginlega fáránlega mikið drama,“ segir Erla og hlær. Gaman að vinna undir pressu Erla segir ótrúlegan mun á því að starfa á netmiðli og á prentmiðli, þar sem bíða þarf eftir prentsmiðjunni áður en fréttin kemur út. „Þetta voru alveg mögnuð viðbrigði og ég sá í raun ekki fyrir mér að fara aftur í prentið. Mér fannst svakalega gaman að vera undir pressu og reyna að koma skúbbi fyrst af öllum á vefinn. Það voru alvöru skúbb, frekar en að bíða eftir að næsta blað kæmi úr prentun. Og svo þetta að fylgjast með því hvernig fréttamál gátu þróast yfir daginn þegar maður fylgdi þeim eftir með stöðugum símtölum og eftirfylgni, auk þess að birta tiltækar upplýsingar jafnóðum.“ Netblaðamaðurinn er alltaf í vinnunni Erla segir svo skuggahlið þessa vera pressuna, þá að skrifa sem flestar fréttir yfir daginn. „Mér fannst mikilvægt að hver frétt gæti staðið ein og sér, en ekki bara setja tengil í aðra frétt. Og það tekur tíma að vinna vandaðar fréttir. Ég man að einu sinni var sett upp keppni meðal okkar netblaðamanna og sá sem skrifaði flestar fréttir yfir vikuna fékk bjórkassa eða eitthvað álíka. Ég varð voða fúl á móti og birti einn daginn allar ómerkilegar fréttatilkynningar sem bárust. En þetta þarf auðvitað að fara saman, framleiðsla og gæði.“ Netið er óseðjandi skrímsli og menn sogast auðveldlega niður í svelginn kunni þeir ekki fótum sínum forráð. Og netblaðamaðurinn er alltaf í vinnunni. „Mér er minnisstætt þegar fjöldamorðin í Útey voru framin. Ég var þá í sumarfríi, bara heima að tjilla, en mér fannst þetta svo merkilegt, sem það auðvitað var, að ég hellti mér í að lesa manifestóið hans Breivik og ég, sem var heima í sumarfríi, var jafnvel komin með upplýsingar úr því á Vísi á undan helstu miðlum á hinum Norðurlöndunum.“ En, þannig er netblaðamannalífið, segir Erla. „Maður er enn meira á vaktinni en hefðbundinn blaðamaður sem þó er alltaf á vaktinni. Hver mínúta skiptir máli.“ Erla er nú sjálfstætt starfandi blaðamaður, tekur að sér greinaskrif og ráðgjöf fyrir fjölmiðla, félagasamtök og fyrirtæki. Born and bred online Sunna Kristín Hilmarsdóttir starfar á Vísi sem blaðamaður og er staðgengill fréttastjóra. Hún var búsett úti í London í mars 2014. Sótti um og hóf störf í september 2014. Hún hefur aldrei starfað sem blaðamaður á prentmiðli og þekkir ekkert annað en netblaðamennsku. Ný kynslóð blaðamanna er ekki með neina drauga í farteskinu. Sunna þekkir ekkert annað en netblaðamennsku, hefur komið sjálfri sér á óvart, hún hefur aldrei starfað eins lengi á sama stað: Netið er svo geggjað.visir/eyþór „Nei – bara born and bred online. Mig langaði til að prófa blaðamennsku. Ég sótti einhvern tímann um á Mogganum og RÚV þegar ég var í skóla – sumarstarf minnir mig en fékk ekki og fór út í mastersnám nokkrum árum síðar. Hugsaði með mér að ég fengi inni á einhverjum miðli eftir skóla. Nú, ef það hefði ekki tekist þá segði ég bara bæ við þennan blaðamannsdraum,“ segir Sunna sem er BA í spænsku frá HÍ og með mastersgráðu í suður-amerískum stjórnmálum frá University College í London. Aldrei verið eins lengi á sama stað Sunna Kristín segir að í sjálfu sér hafi ekki neitt í starfinu komið sér á óvart. Sem kemur á óvart í sjálfu sér. „Nei, ég myndi ekki segja það. Það er kannski skemmtilegra en ég bjóst við eða, ég vissi alveg að þetta væri skemmtilegt starf en núna er ég búin að vera lengi í þessu og er ekki komin með leiða á því,“ segir Sunna Kristín sem hefur þann fyrirvara á að tími sé afstæður. Hún hafi aldrei áður verið svo lengi samfleytt í sömu vinnunni. „Sem kemur á óvart því ég er alveg fiðrildi sem þarf mikið að prófa nýja hluti. En í þessu starfi netblaðamannsins er maður alltaf að gera eitthvað nýtt, finnst mér.“ En hvað finnst þér um hinar óréttmætu og misvísandi kröfur sem gerðar eru til blaðamanna? „Mér finnst eðlilegt að gerðar séu kröfur til blaðamanna og fjölmiðla almennt – það er ekkert að því en gagnrýni á fjölmiðla er stundum mótsagnakennd. Eðli fjölmiðla er að miðla upplýsingum sem þeir, blaðamennirnir sem þar starfa, meta sem svo að eigi erindi við almenning. Þeim upplýsingum er svo komið á framfæri fyrir almenning en svo oftar en ekki vill almenningur ekki sjá upplýsingarnar og telur að fjölmiðlar séu á einhverri annarlegri vegferð. Það er auðvitað aldrei þannig og þessi tvískinnungur – ef maður getur orðað það sem svo – að vilja hafa öfluga fjölmiðla sem upplýsa almenning en gagnrýna þá svo á sama tíma fyrir að birta upplýsingar – mér finnst hann skrýtinn og ég skil hann ekki.“ Netið er bara svo geggjað Sunna Kristín segist ekki geta sagt til um hvort hún sjái fyrir sér að ílengjast í starfi blaðamannsins. „Ég veit það ekki. Ég er ánægð sem stendur en stundum finnst mér það há mér að sjá ekki fyrir mér að starfa á öðruvísi miðli en vefmiðli. Sjónvarp heillar ekki beint og dagblað ekki heldur. Þó ég viti ekkert hvort það er gaman eða ekki. Netið er bara svo geggjað.“ En nú er mikil starfsmannavelta í þessu fagi og fæstir ílengjast í þessu og líkast til spila þar kröpp kjör og slítandi vinna inn í. En þú ert hvergi bangin? „Ekki eins og er. En ég er kannski ekki mikið búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Það kemur bara í ljós.“ Þetta segja flestir sem eru í blaðamennsku, þeir eru ekki búnir að ákveða hvað þeir ætla að verða þegar þeir verða stórir. Jafnvel Gissur Sigurðsson er enn að velta þessu fyrir sér. Þetta er auðvitað skemmtilegasta starf sem um getur og bölvuð baktería. Kjarninn í blaðamennskunni breytist ekki Og hvaða ályktanir má svo draga af frásögnum þessara ágætu blaðamanna sem komu að netblaðamennsku þegar hún var misgömul? Jú, netfréttir hafa átt við trúverðugleikavanda að stríða þótt hann fari óðum minnkandi. Þar er líkast til ruglað saman formi og innihaldi, eins og svo oft er. Merkilegt er, í ljósi orða Ásgeirs Friðgeirssonar, að þessi þróun hafi tekið heil 20 ár. En, menn verja sín vígi, eru fastheldnir og mannskepnan er íhaldssöm í eðli sínu og óttast breytinginar. Og þá er vitaskuld ekki sama hvernig fjölmiðlafyrirtækin sjálf umgangast þennan þátt fréttaflutnings. Vísir hefur aldrei vöðvastæltari verið og stendur þar vaktina nótt sem nýtan dag vaskur hópur fólks.visir/eyþór Mestu skiptir þó að fjölmiðlar eru í meginatriðum eins og fólk vill hafa þá. Fjölmiðlar geta ekki staðið í stríði við umbjóðendur sína, sem eru almenningur. Blaðamönnum ber einfaldlega að mæta eftirspurn; fjalla um það sem er í deiglunni hverju sinni. Það er eðli starfsins – fjölmiðlar eru ekki í þeirri stöðu né eiga þeir að vera í þeirri stöðu að hafa vit fyrir fólki. Þeir gegna alveg nógu mikilvægu hlutverki sem er að koma upplýsingum á framfæri og standa vörð um það meginprinsipp að þeim upplýsingum sé komið á framfæri óbrengluðum. Og hafa beri það sem sannara reynist. Sá kjarni blaðamennskunnar breytist aldrei. Áhyggjur af því að fréttaflutningur útvatnist við það eitt að reynt sé að mæta eftirspurn almennings eru haldlausar. Það getur sá sem hér skrifar borið vitni um eftir að hafa rýnt látlaust í lestrartölur (Chartbeat) samfleytt í fjögur ár. Eftirspurn eftir „alvöru“ fréttum er alltaf til staðar og söm við sig. Hliðvörsluhlutverkið horfið Ef setja má putta á hlutverk fjölmiðla í samfélaginu þá er það að þeirra er að veita valdhöfum aðhald með óbrenglaðri upplýsingagjöf. Í þeim skilningi starfa þeir í umboði almennings og því er aðhald úr þeirri átt gríðarlega mikilvægt. Eins og áður segir eru ýmis lykilhlutverk sem snúa að blaðamennsku í lausu lofti. Mikilvægasta atriði í því samhengi er að fjölmiðlar hafa, með samfélagsmiðlunum þar sem hver og einn rekur sinn eigin fjölmiðil, glatað hliðvörsluhlutverki sínu. Þeirra er ekki lengur að ákvarða hvað heyrir til opinberrar birtingar. Dómstólar hljóta að verða að líta til þessa, að hver maður sé ábyrgur orða sinna og ekki síður verður aðhald almennings að vera vitrænt. Ekki ætti lengur að vera hald í því fyrir hinn meðvirka að vilja halda fjölmiðlum í hlutverki blórabögguls í því að of mikið sé sagt. Versti óvinur hispurslauss fréttaflutnings er Gróa á Leiti. Fjölmiðlar Tímamót Tengdar fréttir Tímamót í 19 ára sögu Vísis Stiklað á stóru í sögu Vísis sem fagnar 19 ára afmæli þann 1. apríl næstkomandi. Tímamótunum verður fagnað með nýrri uppfærslu á Vísi og hvetjum við lesendur til að fylgjast vel með á næstu dögum. 28. mars 2017 15:30 Mest lesið Allt of margir með hugann annars staðar í umferðinni Innlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Missti stjórn á bílnum þegar klæðingin umvafði dekkin Innlent Hætta sem sáttasemjarar í deilu Ísraela og Hamas Fréttir Baráttan hafin á TikTok: Traktor í skeifunni, kaldar kveðjur og endurkoma Innlent Óeirðir í Valensía og kallað eftir afsögn ráðamanna Erlent Ætlar 1750 kílómetra á þrektækjum á einni viku í minningu vina Innlent Yazan og fjölskylda leita að nýju húsnæði Innlent Bjartsýn eftir fund í Virginíu vegna Söndru sem afplánar 37 ára dóm Innlent Lögreglan bannaði bjór á B5 Innlent
Vefmiðillinn Vísir er 19 ára – hann á eitt ár til góða af táningaaldrinum. Vísir hefur vaxið jafnt og þétt á þessum tíma og er nú einn helsti og mikilvægasti fjölmiðill landsins. En, það hefur gengið á ýmsu og í upphafi átti netblaðamennskan við talsverðan trúverðugleikavanda að stríða. Netið var nýstárlegt og netblaðamennska var hálfgert ómark. Eins og þessi saga, sem er saga fólksins á Vísi, á meðal annars eftir að leiða í ljós. Því fjölmargir hafa komið við sögu á þessum miðli sem nú „rúlar“ á fréttamarkaði á Íslandi, svo vitnað sé í einn viðmælandann. En hér verður einkum og sér í lagi rætt við fólkið á gólfinu sem veit hvað klukkan slær. Fjölmiðlar að breytast hratt Netmiðlarnir hafa gerbreytt fjölmiðlalandslaginu og í raun blaðamennskunni sem fagi; öll lykilhugtök sem skilgreina fjölmiðla eru í lausu lofti. Með netinu og samfélagsmiðlum, þegar hver og einn getur sett opinberlega fram það sem honum sýnist, hafa fjölmiðlar glatað hliðvörsluhlutverki sínu. Þeir ákvarða ekki lengur hvað heyrir til opinberrar birtingar. Deila má um hvort eigendur fjölmiðla sem og fagfélagið Blaðamannafélag Íslands hafa haldið í við þá þróun með nauðsynlegum endurskilgreiningum á helstu hugtökum og uppfærslu á ritstjórnarstefnu, verklags- og siðareglum. Þróunin hefur reyndar verið hröð á allra síðustu árum þegar samfélagsmiðlarnir láta stöðugt meira að sér kveða; fjölmiðlar eru í mikilli deiglu, sem aldrei fyrr. Vísir hefur frá öndverðu verið hugsaður þannig að þar sé nýjustu fréttir að finna, ritaðar af sjálfstæðri ritstjórn en vefurinn er jafnframt fréttaveita fyrir hefðbundnari miðla. Nú vinnur vefurinn í nánu samstarfi við Fréttablaðið og svo ljósvakamiðla 365 svo sem Stöð 2 og Stöð 2 Sport, auk Bylgjunnar, FM957 og X-ins. Stökkbreyting fyrir blaðamenn Fyrir reynda blaðamenn, þá sem starfað hafa á prentmiðlunum, er þetta stökkbreyting. Að þurfa ekki að bíða eftir því að fréttirnar fari í gegnum próförk, umbrot, prentun og dreifingu – þær birtast umsvifalaust og hraðinn er mikill. Og netið er óseðjandi skrímsli. Ýmislegt í vinnubrögðunum sjálfum breytist jafnframt og óhjákvæmilega. Sem dæmi má nefna að með tenglum er hægt að brúa bil, koma í veg fyrir skalla í frásögninni, meðan þeir sem skrifa fréttir í prentmiðla geta ekki gengið að fyrirframgefinni þekkingu lesenda. Og þannig má lengi áfram telja. Vísi ýtt úr vör af miklum metnaði Vísi var ýtt úr vör af miklum metnaði og með bravúr árið 1998. Halldór Blöndal, þá samgönguráðherra, opnaði vefinn við sérstaka athöfn í Borgarleikhúsinu. Sá sem stjórnaði þessu var Ásgeir Friðgeirsson, þá forstöðumaður nýmiðlunardeildar Frjálsrar fjölmiðlunar, sem var útgefandi Vísis. Auk þess sem sjálfstæð ritstjórn var mynduð um fréttaskrif birtust þar fréttir blaðamanna á DV, Degi og Viðskiptablaðinu. Ásgeir sá þetta fyrir sér sem víðan vettvang viðskipta(frétta) og sem skemmtitorg þar sem finna mætti allar helstu upplýsingar um hvað væri á döfinni hverju sinni. „Það sem tölvutæknin hefur umfram hefðbundna fjölmiðla er fyrst og fremst gagnvirknin sem býður fólki upp á mun meiri þátttöku í því sem er að gerast. Þá er tölvutæknin opin í báða enda ef svo má að orði komast. Það er hægt að setja inn nýtt efni og taka eldra efni út hvenær sem er og almenningur getur komið inn á vefinn hvenær sem er sólarhringsins,“ sagði Ásgeir þá í samtali við DV. Kjartan Hreinn Njálsson, fréttamaður Stöðvar 2 (áður á Vísi), ræddi við Ásgeir um Vísi – en ítarlegri umfjöllun Kjartans um Vísi mun birtast í fréttatíma Stöðvar 2 á mánudag. Eins og áður sagði, þá hugsaði Ásgeir vefinn ekki sem fréttaveitu heldur sá Vísi fyrir sér sem miklu umfangsmeira fyrirbæri sem nærðist á gagnvirkni. Vel að merkja, þetta er löngu fyrir tíma Facebook, þannig að Ásgeir var á undan Mark Zuckerberg að sjá fyrir möguleika netsins. En, allt er þetta spurning um tímasetningar. Í upphafi hélt Vísir úti Vísisauganu sem gekk út á það að notendur gátu kíkt út á lífið um helgar, með því að fylgjast með á Vísi, en verið samt heima. Eilítið eins og Stuðmenn sungu forðum í laginu Í stórum hring á móti sól: „Við sitjum á sama stað, en erum samt að ferðast.“ Ásgeir hafði að mörgu leyti rétt fyrir sér þótt hann hafi ef til vill verið á undan sinni samtíð: Í dag nýta netmiðlar texta, hljóð og mynd í fréttaflutningi sínum. Beinar útsendingar eru reglulegar á Vísi, alltaf þegar tilefni gefast til. Vísir vöðvastæltari nú en þá Vísir vildi í árdaga láta að sér kveða í skemmtanalífinu, vera þátttakandi og áhorfandi í senn. Raunveruleikaþættinum „Hiti 98“ var ýtt úr vör en þá voru sex ungir Íslendingar sendir til Ibiza þar sem þeir skemmtu sér saman í einni íbúð í tvær vikur. Þátttakendurnir héldu dagbók og greindu lesendum Vísis og hlustendum FM957 frá öllu dramanu, ástinni og örlögunum sem á daga þeirra drifu í lastabælinu Ibiza. Meðal fyrstu blaðamanna á Vísi er Þórarinn Þórarinsson, sem þarna hóf skrautlegan feril sinn en hann átti eftir að starfa á mörgum helstu fjölmiðlum landsins. „Ég byrjaði í blaðamennsku á Vísi.is sumarið 1999 og ber því eðlilega alltaf hlýjar tilfinningar til miðilsins. Vefurinn var rétt um það bil eins árs þegar Ásgeir Friðgeirsson réð mig. Þarna voru bara tveir alvöru fréttamiðlar til, Mbl.is og Vísir.is og við settum markið hátt strax þarna og ætluðum okkur að komast yfir Moggann í aðsókn. Það bar að vísu helvíti mikið á milli og þetta var fjarlægt takmark sem Vísir.is hefur náð af og til í seinni tíð, enda vefurinn talsvert vöðvastæltari nú en þá,“ segir Þórarinn. Jaxlarnir lágu á skúbbum sínum eins og ormar á gulli Og, það er rétt. Mbl.is náði ákveðnu forskoti strax í upphafi netmiðlunar sem miðillinn hefur haldið fast um. Það er ekki fyrr en nú á allra síðustu vikum og mánuðum sem Vísir hefur náð að jafna metin. Mbl.is nýtur þess meðal annars að fjölmargir eldri netnotendur halda bókstaflega að gáttin að internetinu sé mbl.is – sú er upphafssíðan. Mbl.is hefur farið ofurvarlega, með hraða snigilsins, í allar breytingar því menn þar vita að maðurinn er dýr vanans. Vísir hefur hins vegar farið öllu brattar í breytingar alla tíð og verið ólíkt djarfari í þeim efnum. Nýr Vísir í dag er til marks um það. Þórarinn segir að netblaðamennskan hafi átt við trúverðugleika að stríða og því fögnuðu Vísismenn þegar fréttir hans af því að þingmenn reyktu inni í þinghúsinu í sérstöku reykherbergi rötuðu í aðra miðla. Sérstakur bónus var svo að Halldór Blöndal, þá forseti Alþingis, varð saltvondur.vísir/eyþór Þórarinn segir svo frá að ritstjórnin hafi verið til húsa í gamla Hampiðjuhúsinu sem nú heyrir sögunni til. „Við vorum þrjú í blaðamennskunni, ég, Íris Björg Kristjánsdóttir og Auður Aðalsteinsdóttir, og gengum vaktir sem stóðu frá 7 að morgni til 23 um kvöldið. Þarna áttu þeir feðgar Sveinn og Eyjólfur DV og Vísi.is þannig að blaðið var í raun eini bakhjarl okkar með fréttir. Þess vegna sat alltaf eitt okkar í litlu horni á ritstjórn DV í Þverholtinu. Ásgeir lagði mikla áherslu á að við næðum fréttum úr blaðinu sem fyrst inn á vefinn en þar var oftast við ramman reip að draga og gamlir jálkar eins og Eiríkur Jónsson, Garðar Örn Úlfarsson og Reynir Traustason lágu á skúbbum sínum eins og ormar á gulli.“ Hver sekúnda er deddlæn Þarna var fólk enn að tala um netið sem bólu og þessir vefmiðlar þóttu varla marktækir. „Reynir Trausta var fréttastjóri DV þarna og var helvíti nískur á fréttir blaðsins sem þá kom út eftir hádegi þannig að upp úr ellefu var maður farinn að betla fréttir en togarajaxlinn lét mann alveg heyra það að „blaðið er númer eitt, tvö og þrjú“, vefurinn ræki svo lestina. Kallinn er að vísu löngu búinn að hugsa þetta upp á nýtt og við áttum löngu seinna gott samstarf þegar við skutum DV.is upp Modernus-listann.“ Þórarinn segir svo frá að Ásgeir hafi keyrt Vísi.is áfram af miklum metnaði. „Hérna er hver sekúnda deddlæn.“ Og: „Skrifaðu kjarna fréttarinnar í fyrstu setningunni. Engar menntaskólaritgerðir. Bara to the fucking point.“ „Þetta voru fyrstu lexíurnar mínar. Einfaldar og skýrar. Ásgeir lagði einnig ofuráherslu á að vefurinn væri snyrtilegur og villulaus. Það þurfti ekki nema eina innsláttarvillu og þá hringdi hann um hæl og blés hressilega á mann. Það var ekkert pláss fyrir „fréttabörn“ þarna í árdaga netfréttanna. Og auðvitað mættu ritstjórar netmiðlanna í dag taka Ásgeir sér til fyrirmyndar.“ Furðulegt að vera hornreka Þórarinn segir að þegar hugsað sé til baka megi furðu sæta að netmiðlarnir hafi einhvern tíma verið hornkerlingar á markaðnum. Ásgeir lagði mikið upp úr því að Vísir tæki forystu í fréttamálum og Vísir.is þannig stimplaður inn sem alvöru miðill. „Ég man að við áttum góðan sprett þegar Orca-hópurinn keypti Fjárfestingabanka atvinnulífsins við lítinn fögnuð Davíðs Oddssonar. Þetta var samt svolítið svona prívat sigur okkar í litlu loftbólunni okkar og sprakk ekki út annars staðar en á vefnum. Hins vegar fögnuðum við ógurlega þegar fréttir mínar af því að þingmenn reyktu inni í þinghúsinu í sérstöku reykherbergi rötuðu í aðra miðla. Sérstakur bónus var svo að Halldór Blöndal, þá forseti Alþingis, varð saltvondur. En dropinn holar steininn og nú rúlar Vísir.is að sjálfsögðu á fréttamarkaðnum.“ Ásgeir yfirgaf vefinn nokkrum mánuðum eftir að Þórarinn byrjaði þar, í kjölfar þess að Eyþór Arnalds kom með fulla vasa fjár sem forstjóri Íslandssíma og fékk Ásgeir til þess að stjórna vefgáttinni Strik.is. „Sem endaði sem ekta netbóludæmi og sprakk. Góð pæling sem var aðeins á undan samtíma sínum. Eiríkur Hjálmarsson tók við ritstjórninni af Ásgeiri og sá vaski útvarpsmaður og krimmahöfundur Ævar Örn Jósepsson bættist síðan í hópinn. Um svipað leyti tók stórvinkona mín Helga Ólafsdóttir að sér að þróa undirvefinn Spegilinn sem er líklega einn fyrsti „konuvefurinn“ á Íslandi.“ Prentsmiðjurnar skópu trúverðugleikann Stuttu síðar kippti Ásgeir Þórarni yfir á Strikið og leiðir Þórarins og Vísis skildi í bili. En leiðirnar áttu eftir að liggja saman á ný. „Eftir Striks-ævintýrið réð ég mig inn á hið nýstofnaða Fréttablað sem hafði þá leyst DV af sem hryggjarstykkið í fréttaflutningi Vísis og þá var nú öldin önnur. Blaðið ókeypis og ekkert verið að liggja á fréttum og svelta vefinn þannig að við Freyr Bjarnason, varnarjaxl úr FH og nú blaðamaður á Mogganum, höfðum ekki undan að dæla fréttum blaðsins á vefinn. Fréttablaðið tútnaði svo út, rústaði Mogganum og allt í einu vorum við orðin að fjölmiðlarisa í Skaftahlíð þar sem Vísir eignaðist bakland í Fréttablaðinu og fréttastofum Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Eigum við ekki bara að segja að the rest is history og að það hafi verið gaman að taka þátt í að skrifa hana. Á Vísi.is. Síðasta verkefni mitt á Vísi var að skóla ungan rauðhærðan grænjaxl til sem síðar varð ofurfréttamaðurinn Brynjólfur Þór Guðmundsson,“ segir Þórarinn. Þóri leist vel á fjölmiðlarisann Rauði þráðurinn í endurminningum Þórarins er sú að netblaðamennskan hafi átt erfitt uppdráttar í árdaga. Líkast til að vonum. Fólk tók ekki mark á fréttum nema það væri búið að keyra þær í gegnum prentsmiðjurnar. Jón Hákon segir það hafa verið gríðarlega mikla upplifun fyrir óreyndan blaðamann að fá að vinna með manni eins og Óla Tynes, en nefnir líka Gissur Sigurðsson, Kristján Má Unnarsson og Heimi Má Pétursson.visir/ernir Þetta má einnig greina í frásögn Jóns Hákons Halldórssonar, sem kallaður er fjölmiðlarisinn og stendur vel undir þeirri nafngift – í öllum skilningi. Hann byrjaði á Vísi í júní árið 2007 og starfaði þar allt til ársins 2013. Hann yfirgaf Vísi, tók til starfa á Viðskiptablaðinu en kom fljótlega aftur í Skaftahlíðina og hóf þá störf á Fréttablaðinu. Þegar Jón Hákon hóf störf á Vísi höfðu orðið umskipti á eignarhaldi og Vísir var kominn undir hatt fjölmiðlafyrirtækisins 365. „Ég hafði tekið hagnýta fjölmiðlun og sótti upphaflega um hjá Fréttablaðinu. Ég sótti um sumarstarf og Þóri Guðmundssyni, þáverandi ritstjóra Vísis, leist nógu vel á mig til að ráða mig í sumarstarf.“ Mikið mannval á Vísi Þegar Jón Hákon mætti til starfa á Vísi var þar fyrir á fleti mikið mannval: Jónas Haraldsson, Höskuldur Kári Schram, Gunnar Reynir Valþórsson, Óli Tynes, Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir, Sigríður Guðlaugsdóttir og Björn Gíslason. „Og ég og sportararnir. Ég man nú ekki alveg hvað þeir voru margir. Friðrik Indriðason og Andri Ólafsson byrjuðu svo þar síðla sumars.“ Í raun hefur þú feril þinn í blaðamennsku á netmiðli? „Já, ég gerði það. Það var mögnuð upplifun. En mjög mikil áskorun. Að mörgu leyti held ég að netfréttamennskan sé erfiðari heldur en önnur fréttamennska. Hvergi eru meiri kröfur um hraða og maður þurfti alltaf að treysta á eigin íslenskukunnáttu því að við vorum ekki með prófarkalesara þá frekar en nú eins og gerist og gengur á prentmiðlunum.“ Vísir hefur vaxið verulega Jón Hákon segist ekki hafa farið varhluta af því að netblaðamennskan og netmiðlarnir hafi verið einhvers konar afgangsstærð hjá eigendum/Blaðamannafélaginu. „Ekki bara eigendum, heldur fyrirtækinu í heild. Á þeim tíma þótti ekki eins fínt að vera í netblaðamennsku og á dagblaði eða í sjónvarpi. Viðhorfið er allt gjörbreytt núna og Vísir hefur vaxið gríðarlega mikið.“ Svo ferð þú úr netblaðamennskunni og yfir á prentmiðil. Hvernig er sú upplifun, að þurfa að bíða eftir prentsmiðjunni? „Það hefur sína kosti og sína galla. Oft er gott að geta vandað sig við fréttina, fréttaöflunina og frágang. En hættan er auðvitað sú að netmiðlarnir séu búnir að segja fréttina þegar blaðið kemur út.“ Er það ekki óbærileg staða? „Nei, ef mér þætti það væri ég nú kominn aftur á netið. En auðvitað skiptir máli hvernig maður hugsar fréttina.“ Aðrir miðlar kepptust við að afsanna fréttina Blaðamennska er lifandi starf og kannski bjánalegt að spyrja svona en … er eitthvert atvik öðrum minnisstæðara? Jón Hákon segir eitt og annað í frásögur færandi. Til dæmis … „… þegar Óskar Hrafn Þorvaldsson var ritstjóri Vísis kom hann til mín einn daginn og sagðist hafa heyrt að Ólafur F. Magnússon ætlaði að kljúfa borgarstjórnarmeirihlutann og mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Við sögðum fréttina snemma um morguninn og hún kom eins og þruma úr heiðskíru lofti inn í íslenskt samfélag. Allan daginn voru aðrir miðlar að keppast við að afsanna fréttina, meira að segja miðlar innan 365, en svo kom í ljós upp úr klukkan fimm þann daginn að fréttirnar sem við höfðum sagt á Vísi af borgarstjórnarmeirihluta í burðarliðnum voru alveg hárréttar.“ Saknar Óla Tynes En ekki hvað? Nú varst þú að vinna með þjóðsagnapersónum í blaðamennskunni eins og Óla Tynes, manninum sem fann upp Hafnarfjarðarbrandarana … það hefur væntanlega haft þau áhrif að þú skrifaðir fyrirsagnir sem teljast ódauðlegar í sögu Vísis svo sem „Lífshættulegt fyrir kjúklinga að fara í sláturhús“ og „Búið að bjarga kjúklingunum – eru á leið í sláturhús“? „Það var gríðarlega mikil upplifun fyrir óreyndan blaðamann að fá að vinna með manni eins og Óla Tynes, en ég nefni líka Gissur Sigurðsson, Kristján Má Unnarsson og Heimi Má Pétursson. Þeir kenndu manni mikið, bæði varðandi fyrirsagnir og annað. Óli og Gissur tuktuðu mann oft til ef þeim leist ekki á það sem maður var að gera og Gissur er reyndar ennþá að. Ég hugsa reglulega til Óla og sakna hans mikið.“ Byrjaði á Vísi á dramatísku tímabili Einn af þekktari blaðamönnum landsins er Erla Hlynsdóttir, en þrisvar hefur Mannréttindadómstóll snúið dómum Hæstaréttar gegn henni. Erla byrjaði á Vísi haustið 2010 en færði sig svo yfir á Stöð 2 eftir um það bil ár. Erla segir að netblaðamaðurinn sé alltaf í vinnunni og henni er minnisstætt þegar fjöldamorðin voru framin í Útey og hún í sumarfríi, ekki var annað hægt en greina frá því sem hún vissi inn á Vísi.visir/eyþór Þegar hún kom á Vísi voru þar fyrir menn svo sem Gunnar Reynir Valþórsson, Friðrik Indriðason ... „og Boði Logason, sem er ein uppáhaldsmanneskjan mín í öllum heiminum. Svo man ég eftir slatta af fólki sem stoppaði mjög stutt við svo sem Birkir Blær sem er held ég núna á RÚV, en hann var um tíma í krakkasjónvarpinu; Salóme Gunnarsdóttir leikkona, Magnús Már Guðmundsson borgarfulltrúi Samfylkingarinnar var þegar ég byrjaði en hætti fljótlega...“ Talsverð læti voru í lífi Erlu þá er hún byrjaði á Vísi. „Ég var á DV og fór í fæðingarorlof í árslok 2009. Skömmu áður en ég átti að koma aftur neitaði stjórn DV að borga einhverjar 200 þúsund krónur sem ég var dæmd til að greiða vegna meiðyrða, og ég bara hætti. Karen Kjartansdóttir, sem þá var á Stöð 2, hafði verið að hvetja mig til að koma yfir á 365 og ég kom bara beint úr fæðingarorlofi á Vísi. Þetta var eiginlega fáránlega mikið drama,“ segir Erla og hlær. Gaman að vinna undir pressu Erla segir ótrúlegan mun á því að starfa á netmiðli og á prentmiðli, þar sem bíða þarf eftir prentsmiðjunni áður en fréttin kemur út. „Þetta voru alveg mögnuð viðbrigði og ég sá í raun ekki fyrir mér að fara aftur í prentið. Mér fannst svakalega gaman að vera undir pressu og reyna að koma skúbbi fyrst af öllum á vefinn. Það voru alvöru skúbb, frekar en að bíða eftir að næsta blað kæmi úr prentun. Og svo þetta að fylgjast með því hvernig fréttamál gátu þróast yfir daginn þegar maður fylgdi þeim eftir með stöðugum símtölum og eftirfylgni, auk þess að birta tiltækar upplýsingar jafnóðum.“ Netblaðamaðurinn er alltaf í vinnunni Erla segir svo skuggahlið þessa vera pressuna, þá að skrifa sem flestar fréttir yfir daginn. „Mér fannst mikilvægt að hver frétt gæti staðið ein og sér, en ekki bara setja tengil í aðra frétt. Og það tekur tíma að vinna vandaðar fréttir. Ég man að einu sinni var sett upp keppni meðal okkar netblaðamanna og sá sem skrifaði flestar fréttir yfir vikuna fékk bjórkassa eða eitthvað álíka. Ég varð voða fúl á móti og birti einn daginn allar ómerkilegar fréttatilkynningar sem bárust. En þetta þarf auðvitað að fara saman, framleiðsla og gæði.“ Netið er óseðjandi skrímsli og menn sogast auðveldlega niður í svelginn kunni þeir ekki fótum sínum forráð. Og netblaðamaðurinn er alltaf í vinnunni. „Mér er minnisstætt þegar fjöldamorðin í Útey voru framin. Ég var þá í sumarfríi, bara heima að tjilla, en mér fannst þetta svo merkilegt, sem það auðvitað var, að ég hellti mér í að lesa manifestóið hans Breivik og ég, sem var heima í sumarfríi, var jafnvel komin með upplýsingar úr því á Vísi á undan helstu miðlum á hinum Norðurlöndunum.“ En, þannig er netblaðamannalífið, segir Erla. „Maður er enn meira á vaktinni en hefðbundinn blaðamaður sem þó er alltaf á vaktinni. Hver mínúta skiptir máli.“ Erla er nú sjálfstætt starfandi blaðamaður, tekur að sér greinaskrif og ráðgjöf fyrir fjölmiðla, félagasamtök og fyrirtæki. Born and bred online Sunna Kristín Hilmarsdóttir starfar á Vísi sem blaðamaður og er staðgengill fréttastjóra. Hún var búsett úti í London í mars 2014. Sótti um og hóf störf í september 2014. Hún hefur aldrei starfað sem blaðamaður á prentmiðli og þekkir ekkert annað en netblaðamennsku. Ný kynslóð blaðamanna er ekki með neina drauga í farteskinu. Sunna þekkir ekkert annað en netblaðamennsku, hefur komið sjálfri sér á óvart, hún hefur aldrei starfað eins lengi á sama stað: Netið er svo geggjað.visir/eyþór „Nei – bara born and bred online. Mig langaði til að prófa blaðamennsku. Ég sótti einhvern tímann um á Mogganum og RÚV þegar ég var í skóla – sumarstarf minnir mig en fékk ekki og fór út í mastersnám nokkrum árum síðar. Hugsaði með mér að ég fengi inni á einhverjum miðli eftir skóla. Nú, ef það hefði ekki tekist þá segði ég bara bæ við þennan blaðamannsdraum,“ segir Sunna sem er BA í spænsku frá HÍ og með mastersgráðu í suður-amerískum stjórnmálum frá University College í London. Aldrei verið eins lengi á sama stað Sunna Kristín segir að í sjálfu sér hafi ekki neitt í starfinu komið sér á óvart. Sem kemur á óvart í sjálfu sér. „Nei, ég myndi ekki segja það. Það er kannski skemmtilegra en ég bjóst við eða, ég vissi alveg að þetta væri skemmtilegt starf en núna er ég búin að vera lengi í þessu og er ekki komin með leiða á því,“ segir Sunna Kristín sem hefur þann fyrirvara á að tími sé afstæður. Hún hafi aldrei áður verið svo lengi samfleytt í sömu vinnunni. „Sem kemur á óvart því ég er alveg fiðrildi sem þarf mikið að prófa nýja hluti. En í þessu starfi netblaðamannsins er maður alltaf að gera eitthvað nýtt, finnst mér.“ En hvað finnst þér um hinar óréttmætu og misvísandi kröfur sem gerðar eru til blaðamanna? „Mér finnst eðlilegt að gerðar séu kröfur til blaðamanna og fjölmiðla almennt – það er ekkert að því en gagnrýni á fjölmiðla er stundum mótsagnakennd. Eðli fjölmiðla er að miðla upplýsingum sem þeir, blaðamennirnir sem þar starfa, meta sem svo að eigi erindi við almenning. Þeim upplýsingum er svo komið á framfæri fyrir almenning en svo oftar en ekki vill almenningur ekki sjá upplýsingarnar og telur að fjölmiðlar séu á einhverri annarlegri vegferð. Það er auðvitað aldrei þannig og þessi tvískinnungur – ef maður getur orðað það sem svo – að vilja hafa öfluga fjölmiðla sem upplýsa almenning en gagnrýna þá svo á sama tíma fyrir að birta upplýsingar – mér finnst hann skrýtinn og ég skil hann ekki.“ Netið er bara svo geggjað Sunna Kristín segist ekki geta sagt til um hvort hún sjái fyrir sér að ílengjast í starfi blaðamannsins. „Ég veit það ekki. Ég er ánægð sem stendur en stundum finnst mér það há mér að sjá ekki fyrir mér að starfa á öðruvísi miðli en vefmiðli. Sjónvarp heillar ekki beint og dagblað ekki heldur. Þó ég viti ekkert hvort það er gaman eða ekki. Netið er bara svo geggjað.“ En nú er mikil starfsmannavelta í þessu fagi og fæstir ílengjast í þessu og líkast til spila þar kröpp kjör og slítandi vinna inn í. En þú ert hvergi bangin? „Ekki eins og er. En ég er kannski ekki mikið búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Það kemur bara í ljós.“ Þetta segja flestir sem eru í blaðamennsku, þeir eru ekki búnir að ákveða hvað þeir ætla að verða þegar þeir verða stórir. Jafnvel Gissur Sigurðsson er enn að velta þessu fyrir sér. Þetta er auðvitað skemmtilegasta starf sem um getur og bölvuð baktería. Kjarninn í blaðamennskunni breytist ekki Og hvaða ályktanir má svo draga af frásögnum þessara ágætu blaðamanna sem komu að netblaðamennsku þegar hún var misgömul? Jú, netfréttir hafa átt við trúverðugleikavanda að stríða þótt hann fari óðum minnkandi. Þar er líkast til ruglað saman formi og innihaldi, eins og svo oft er. Merkilegt er, í ljósi orða Ásgeirs Friðgeirssonar, að þessi þróun hafi tekið heil 20 ár. En, menn verja sín vígi, eru fastheldnir og mannskepnan er íhaldssöm í eðli sínu og óttast breytinginar. Og þá er vitaskuld ekki sama hvernig fjölmiðlafyrirtækin sjálf umgangast þennan þátt fréttaflutnings. Vísir hefur aldrei vöðvastæltari verið og stendur þar vaktina nótt sem nýtan dag vaskur hópur fólks.visir/eyþór Mestu skiptir þó að fjölmiðlar eru í meginatriðum eins og fólk vill hafa þá. Fjölmiðlar geta ekki staðið í stríði við umbjóðendur sína, sem eru almenningur. Blaðamönnum ber einfaldlega að mæta eftirspurn; fjalla um það sem er í deiglunni hverju sinni. Það er eðli starfsins – fjölmiðlar eru ekki í þeirri stöðu né eiga þeir að vera í þeirri stöðu að hafa vit fyrir fólki. Þeir gegna alveg nógu mikilvægu hlutverki sem er að koma upplýsingum á framfæri og standa vörð um það meginprinsipp að þeim upplýsingum sé komið á framfæri óbrengluðum. Og hafa beri það sem sannara reynist. Sá kjarni blaðamennskunnar breytist aldrei. Áhyggjur af því að fréttaflutningur útvatnist við það eitt að reynt sé að mæta eftirspurn almennings eru haldlausar. Það getur sá sem hér skrifar borið vitni um eftir að hafa rýnt látlaust í lestrartölur (Chartbeat) samfleytt í fjögur ár. Eftirspurn eftir „alvöru“ fréttum er alltaf til staðar og söm við sig. Hliðvörsluhlutverkið horfið Ef setja má putta á hlutverk fjölmiðla í samfélaginu þá er það að þeirra er að veita valdhöfum aðhald með óbrenglaðri upplýsingagjöf. Í þeim skilningi starfa þeir í umboði almennings og því er aðhald úr þeirri átt gríðarlega mikilvægt. Eins og áður segir eru ýmis lykilhlutverk sem snúa að blaðamennsku í lausu lofti. Mikilvægasta atriði í því samhengi er að fjölmiðlar hafa, með samfélagsmiðlunum þar sem hver og einn rekur sinn eigin fjölmiðil, glatað hliðvörsluhlutverki sínu. Þeirra er ekki lengur að ákvarða hvað heyrir til opinberrar birtingar. Dómstólar hljóta að verða að líta til þessa, að hver maður sé ábyrgur orða sinna og ekki síður verður aðhald almennings að vera vitrænt. Ekki ætti lengur að vera hald í því fyrir hinn meðvirka að vilja halda fjölmiðlum í hlutverki blórabögguls í því að of mikið sé sagt. Versti óvinur hispurslauss fréttaflutnings er Gróa á Leiti.
Tímamót í 19 ára sögu Vísis Stiklað á stóru í sögu Vísis sem fagnar 19 ára afmæli þann 1. apríl næstkomandi. Tímamótunum verður fagnað með nýrri uppfærslu á Vísi og hvetjum við lesendur til að fylgjast vel með á næstu dögum. 28. mars 2017 15:30