Handbolti

„Þorði ekki að vonast eftir þessum úrslitum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vignir Stefánsson hefur spilað virkilega vel í síðustu leikjum Vals.
Vignir Stefánsson hefur spilað virkilega vel í síðustu leikjum Vals. vísir/andri marinó
Valsmenn fara með átta marka forskot til Rúmeníu eftir 30-22 sigur á AHC Potaissa Turda í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Áskorendabikars Evrópu á laugardaginn. Frábær úrslit hjá Val sem var miklu sterkari aðilinn í leiknum.

Varnarleikur Valsmanna var gríðarlega öflugur með bræðurna Orra Frey og Ými Örn Gíslasyni í broddi fylkingar og hinn síungi Hlynur Morthens varði vel í markinu. Valsmenn voru skynsamir í sókninni þótt þeir hefðu tapað fullmörgum boltum í fyrri hálfleik. Þá fóru þrjú vítaköst í súginn.

„Maður þorði ekki alveg að vonast eftir þessum úrslitum en við erum gríðarlega ánægðir,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfara Vals, eftir leikinn.

„Við fórum inn í leikinn til þess að reyna að vinna hann með sem flestum mörkum og það gekk vel í dag. Það var rosalega mikilvægt að vinna með átta og fá bara á okkur 22 mörk. Við erum að fara á gríðarlega erfiðan útivöll. Núna er bara hálfleikur og maður verður bara að líta á þetta þannig að við séum átta mörkum yfir.“

Valur fékk framlag frá mörgum leikmönnum í sókninni í leiknum á laugardaginn. Vignir Stefánsson heldur áfram að spila eins og engill og skoraði sjö mörk úr vinstra horninu. Sveinn Aron Sveinsson var með sex úr því hægra. Þá hrökk króatíska skyttan Josip Juric Grgic heldur betur í gang undir lokin. Hann var markalaus allt fram á 47. mínútu en skoraði svo átta mörk á síðustu 13 mínútum leiksins.

Seinni leikurinn Potaissa Turda fer fram ytra á sunnudaginn kemur. Í millitíðinni mætir Valur Fram í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla. Valsmenn unnu fyrsta leikinn örugglega, 23-31, og leiða einvígið 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×