Fótbolti

Totti hættir í lok leiktíðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Francesco Totti.
Francesco Totti. Vísir/Getty
Francesco Totti, einn besti leikmaður Ítala síðari ár, hefur ákveðið að hætta í lok tímabilsins. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi AS Roma í dag.

Þar tilkynnti Monchi, nýr yfirmaður knattspyrnumála hjá Roma, að Totti myndi hætta í lok þessa tímabils og taka þá við yfirmannsstöðu á skrifstofu félagsins.

Francesco Totti er fertugur og hefur spilað með AS Roma allan ferilinn, í alls 24 ár. Hann spilaði sinn fyrsta leik með félaginu árið 1993 og hefur síðan þá komið við sögu í meira en 600 leikjum.

„Hvað Totti varðar þá vissi ég nú þegar að það er samkomulag við félagið um að þetta verði síðasta tímabilið hans sem leikmaður en að hann taki svo við yfirmannsstöðu hjá félaginu,“ sagði Monchi.

„Francesco er Roma. Ég vil vera eins nálægt honum og hægt er. Ég myndi vilja hafa eitt prósent af þeim mikla fróðleik sem hann býr yfir.“

Síðasti leikur Totti fyrir Roma verður gegn Genio á Ólympíuleikvanginum í Róm þann 28. maí. Hann varð tvívegis Ítalíumeistari með Roma og heimsmeistari með Ítalíu árið 2006 en hann hætti að gefa kost á sér í landsliðið eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×