Innlent

Talar fyrir réttindum öryrkja en ekki stofnun Sósíalistaflokksins

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins.
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins. Vísir/Anton
Dagskrá verkalýðsdagsins í ár er með örlítið öðru móti en undanfarin ár þar sem að tveir kröfufundir fara fram í miðbæ Reykjavíkur. Um hundrað metrar aðskilja sviðin tvö. Aðstandendur síðari fundarins eru allt annað en sáttir með sitjandi verkalýðsforystu.

„Frá því að ég tók við sem formaður Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) hef ég óskað eftir því að tala á baráttufundinum 1. maí. Ég gafst upp á því núna,“ segir Ellen Calmon, formaður ÖBÍ. Hún er ein þeirra sem kemur fram á hinum nýja fundi.

Meðal annarra sem koma þar fram má nefna Ragnar Þór Ingólfsson, nýkjörinn formann VR, og Gunnar Smára Egilsson, fyrrverandi ritstjóra og driffjöður í Sósíalistaflokki Íslands. Sá fundur verður einmitt stofnaður á fundinum á morgun.

„Ég ætla alls ekki að tala ef þetta er sérstakur fundur Sósíalistaflokksins. ÖBÍ aðhyllist engan flokk umfram annan,“ segir Ellen. „Það gafst þarna tækifæri til að koma fram ásamt fleirum sem vilja breytingar á samfélaginu.“

Ellen segir að stór hluti öryrkja sé fólk með geðræn eða stoðkerfisvandamál sem rekja megi til of mikillar vinnu.

„Ef verkalýðsforystan stæði sig í stykkinu og verði hagsmuni launafólks þá væri staðan mögulega önnur. Þess í stað vill hún frekar fara í hjónasæng með Samtökum atvinnulífsins. Við förum fram á það að hlustað verði á kröfur örorkulífeyrisþega,“ segir Ellen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×