Umfjöllun og viðtöl: KA - Víkingur R. 2-2 | Víkingar náðu í stig í fyrsta leiknum undir stjórn Loga | Sjáðu mörkin

Sveinn Arnarsson skrifar
KA og Víkingur R. gerðu 2-2 jafntefli í fyrsta leik 5. umferðar Pepsi-deildar karla í dag.

Þetta var fyrsti leikur Víkings undir stjórn Loga Ólafssonar í aldarfjórðung og Fossvogsliðið gerði vel í koma til baka og ná í stig.

Staðan í hálfleik var markalaus en seinni hálfleikurinn var aðeins 22 sekúndna gamall þegar Ásgeir Sigurgeirsson kom KA yfir eftir mistök í vörn Víkings. Emil Lyng bætti öðru marki við á 61. mínútu og staða heimamanna orðin góð.

Víkingar komust inn í leikinn þegar Vladimir Tufegdzic skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var á Bjarki Þór Viðarsson fyrir handleika boltann innan vítateigs. Bjarki fékk einnig að líta rauða spjaldið.

Einum fleiri jöfnuðu Víkingar metin þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Alex Freyr Hilmarsson skoraði þá eftir sendingu Dofra Snorrasonar.

Af hverju varð jafntefli?

Leikurinn var mjög kaflaskiptur. Víkingar áttu kannski síðasta korterið í báðum hálfleikjum á meðan heimamenn í KA réðu lögum og lofum þess utan. Víkingar nýttu það vel að vera manni fleiri og náðu að setja jöfnunarmark í blálokin.

Það verður að teljast harður dómur að reka Bjarka Þór Viðarsson af velli þegar hann bjargaði á marklínu og víti dæmt. Svo virðist esm Bjarki hafi verið með höndina samsíða líkamanum og allan líkamann aftan við bolta. Það verður hinsvegar ekki deilt við dómarann, víti dæmt og Bjarki rekinn út af. Það reyndist svo vendipunktur leiksins.

Hverjir stóðu upp úr?

Ivica Jovanovic var skæður frammi og Dofri Snorrason sömuleiðis sprækur ásamt Alex Frey Hilmarssyni. Hinsvegar voru það heimamenn sem stýrðu lengstum. Emil Lyng, sóknarmaður KA manna var öflugur í leiknum og skoraði flott mark. Einnig var Aleksander Trninic öflugur en hann og Almarr stýrðu á löngum köflum leiknum.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa hjá Víkingum að halda boltanum innan liðsins meirihluta leiksins. Hinsvegar náðu þeir oft á tíðum góðu spili og hætta skapaðist við mark KA manna. Þegar KA menn urðu manni færri kom upp stress í heimamönnum sem áttu í stökustu vandræðum að halda boltanum og skapa sér hluti. Því fór sem fór og jafntefli raunin.

Hvaða gerist næst?

KA menn fara til Ólafsvíkur í næstu umferð og verða að gjöra svo vel að sigr í þeim leik. KA hefur glutrað þremur stigum í síðustu tveimur leikjum í uppbótartíma og því hugsa þeir sér að enda þá hrinu og sækja þrjú stig. Aðeins hefur sigið á ógæfuhlið þeirra eftir öfluga byrjun.

Víkingar hinsvegar fá Fjölni í heimsókn og hafa því góðan tíma með nýjum þjálfara að móta leik sinn. Jafnteflið í dag gefur þeim byr í seglin og gæti þetta nýst til að efla sjálfstraust leikmanna sem hefur ekki verið upp á marga fiska eftir góða byrjun og sigur gegn KR ingum í fyrstu umferð deildarinnar.

Almarr: „Harður dómur“

Almarr Ormarsson, miðjumaður KA manna var að vonum svekktur í leikslok. Sagði hann sína menn þurfa að fara yfir leikinn og læra af honum.

„Við áttum seinni hálfleikinn og skorum mark eftir nokkrar sekúndur. Því er það svekkjandi að missa þetta niður. Mér fannst þetta harður dómur en ég er líklega ekki hlutlaus þegar kemur að þessum málum,“ segir Almarr.

„Þegar við missum manninn útaf verður smá stress og við eigum í erfiðleikum með að halda boltanum og fáum á okkur tvö mörk. Við þurfum að bæta úr þessu í næsta leik.“

Róbert Örn: „Léttir að fá stig“

Róbert Örn Óskarsson, markmaður og fyrirliði Víkinga, segir nýjan kafla hafinn hjá liðinu með nýjum þjálfara. Þau mál séu að baki og nú þjappi hópurinn sér saman.

Hann var að vonum ánægður með að hafa náð jafntefli eins og leikurinn þróaðist.

„Við vorum ekki i contact fyrstu mínúturnar í seinni og fáum á okkur tvö mörk. Þá ræddum við saman og fórum yfir stöðuna. Það var því mikill léttir að ná tveimur mörkum og jafna leikinn. Nú tekur bara við nýr kafli og mikilvægt að við byggjum á þessu,“ segir Róbert Örn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira