Donald Trump Bandaríkjaforseti mun funda með Frans páfa í Vatíkaninu á morgun, miðvikudag. Að fundi loknum mun páfi svo fara með Trump í skoðunarferð um Péturskirkjuna og Sixtínsku kapelluna.
Forsetavélin Air Force One lenti á Leonardo Da Vinci flugvelli í Róm síðdegis í dag en þetta er fyrsta opinbera heimsókn Trump til Evrópu frá því að hann tók við embætti Bandaríkjaforseta í janúar.
Forsetinn kom til Rómar eftir heimsókn sína til Sádi-Arabíu, Ísrael og palestísku heimastjórnarsvæðanna.
Trump og Frans páfi munu funda í fyrri partinn á morgun og er búist við að málefni flóttafólks, loftslagsmál og kapitalisminn verði þar til umræðu. Búist er við að forsetafrúin Melania Trump og dóttir forsetans, Ivanka Trump , komi til með að taka þátt í fundinum með páfa.
Að því loknu mun Trump funda með ítalska forsætisráðherranum Paolo Gentiloni og forsetanum Sergio Mattarella í forsetahöllinni í Róm.
Síðdegis mun Trump svo fljúga til Brussel þar sem hann mun eiga fund með leiðtogum Evrópusambandsins og NATO áður en hann snýr aftur til Ítalíu á fimmtudag þar sem hann mun verða viðstaddur leiðtogafund G7-ríkjanna á Sikiley föstudag og laugardag.
Páfinn fer með Trump í skoðunarferð um Péturskirkjuna
Atli Ísleifsson skrifar
