„Ég get ekki sagt að þetta hafi verið léttara en ég bjóst við en eftir því sem leið á keppnina þá jókst bilið milli mín og þess sem varð í öðru sæti. Þetta var aldrei í mikilli hættu,“ sagði Björgvin Karl Guðmundsson sem er kallaður BKG í Ameríku.
„Þetta snýst voðalega mikið um það að vera jafn í öllu og það skilar þér besta árangrinum,“ sagði Björgvin Karl en hvað er langt síðan að byrjaði í Crossfit.
„Ætli ég hafi ekki byrjað sumarið 2012 en þá var ég að klára skólann en byrjaði síðan í Crossfit Reykjavík um sumarið ,“ sagði Björgvin Karl.
Ívar benti á það að Björgvin Karl sé í stjörnummerkinu Voginni og það sé mikill keppnisandi í því stjörnumerki. „Ég hef tekið eftir því sjálfur og er alveg samála þér,“ sagði Björgvin Karl. Hann lenti í áttunda sæti á heimsleikunum í fyrra eftir að hafa vera þriðji 2015.
„Draumurinn er bara að reyna að endurtaka það sem gerðist 2015 og geta betur en það. Það eru fleiri að fara að taka þetta af mikilli meiri alvöru enda er fullt, fullt af fólki sem gerir bara þetta. Fyrir fimm árum voru bara örfáir sem voru farnir að gera þetta að atvinnu sinni,“ sagði Björgvin Karl sem sjálfur er atvinnumaður í Crossfit. Íslenski hópurinn verður stór á heimsleikunum í ár.
„Við erum að fara með tvö lið og sex einstaklinga ef við tökum Frederik með. Hann er danskur en er tengdasonur Íslands því hann er kærastinn hennar Annie Mist. Hann hefur rétt misst af því að komast á heimsleikana síðustu þrjú ár en núna komst hann inn,“ sagði Björgvin Karl um Frederik Ægidius sem verður með á heimsleikunum í ár.
„Við æfum saman og þessa vegna er gaman að sjá hann komast inn líka,“ sagði Björgvin Karl sem gantaðist með það að hann þurfi að sleppa að fara til Eyja um Verslunarmannahelgina í ár því það er búið að færa heimsleikana á þá helgi.
„Við förum fljótlega út til Bandaríkjanna. Tímamismunurinn er mikill, hitinn er miklu meiri og það er miklu meiri raki. Það tekur mann alveg sex til sjö daga að venjast aðstæðum almennilega, “ sagði Björgvin Karl.
Það má heyra allt spjallið við Björgvin Karl Guðmundsson í spilaranum hér fyrir neðan: