
Íbúar Grenfell-turnsins fá nýjar íbúðir

Íbúðirnar eru ýmist eins, tveggja eða þriggja herbergja og eru staðsettar í götum sem liggja meðfram uppbyggingu lúxusíbúða í Kensington-hverfi í London, steinsnar frá Westfield-verslunarmiðstöðinni.
„Samfélögin, bæði í Norður- og Suður-Kensington, munu sameinast á hamfaratímum sem þessum,“ er haft eftir George, íbúa á svæðinu. „Vel verður hugsað um eftirlifendur og fjölskyldur þeirra.“
Íbúðirnar munu vera fullbúnar húsgögnum en byggingarnar eru aðeins í um 2,5 kílómetra fjarlægð frá Grenfell-turni.
Talið er að 79 hafi látist í brunanum í vikunni sem leið. Síðan þá hafa einhverjir íbúar Grenfell-turnsins sem misstu heimili sín dvalið á hótelum. Lýst var yfir áhyggjum af því að húsnæði, sem þeim yrði útvegað til frambúðar, yrði staðsett annars staðar á landinu en nú er ljóst að svo verði ekki. Búist er við því að íbúðirnar í Kensington verði tilbúnar í lok júlí.
Í Grenfell-turni voru 120 félagslegar íbúðir á vegum hins opinbera en talið er að þar hafi búið á milli 400 og 600 manns.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur beðist opinberlega afsökunar á brunanum í Grenfell-turni en stjórn Íhaldsflokksins hefur verið sökuð um að hunsa ábendingar dánardómstjóra um að endurskoða þyrfti byggingarreglugerðir um brunavarnir.
Tengdar fréttir

Mótmæli og mikil reiði vegna viðbragða yfirvalda við brunanum í Grenfell-turni
Fjölmenn mótmæli voru í Kensington og Chelsea í London í dag vegna viðbragða yfirvalda við brunanum í Grenfell-turni aðfaranótt miðvikudags.

Ólýsanlegar aðstæður í Grenfell-turni: Talið að allt að sjötíu manns hafi látið lífið
Talið er að allt að sjötíu manns hafi farist í brunanum í Grenfell-turni í vesturhluta London aðfaranótt miðvikudagsins 14. júní.

Klæðningin á Grenfell-turninum var bönnuð á Bretlandi
Fjármálaráðherra Bretlands segir að klæðningin sem var utan á Grenfell-turninum sem brann á miðvikudag sé ólögleg í Bretlandi, Evrópu og Bandaríkjunum. Að minnsta kosti 58 eru látnir eftir eldsvoðann.

Óttast að 79 manns hafi farist í brunanum í Grenfell-turni
Lögreglan hefur staðfest að 79 einstaklingar hafi látið lífið eða sé saknað og þar með taldir af eftir eldsvoðann í Grenfell-turni aðfaranótt miðvikudags liðinnar viku.

Fjórir ráðherrar voru varaðir við eldhættu í háhýsum í London
Fjórir ráðherrar í ríkisstjórn Bretlands voru varaðir við því að byggingarreglugerðir um brunavarnir tryggðu ekki öryggi íbúa og að nauðsynlegt væri að endurskoða þær.