Handknattleiksmaðurinn Þráinn Orri Jónsson sem spilað hefur með Gróttu á Seltjarnarnesi er á leið út í atvinnumennsku. Þetta staðfesti hann við Morgunblaðið í gær.
Þráinn Orri gat ekki sagt hvaða lið hann væri að ganga til liðs við, en hann gaf upp að liðið væri eitt betri liða Norðurlandanna og það léki í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.
Því er aðeins um fjögur lið að ræða, Aalborg og Skjern í Danmörku, norska liðið Elverum og sænska liðið Kristinstad. Elverum var á höttunum eftir Valsmönnunum Orra Frey og Ými Erni Gíslasonum og því ekki ólíklegt að þeir hafi haft augastað á fleiri Íslendingum.
Þráinn Orri var einn besti leikmaður Seltirninga á síðasta tímabili, bæði í varnarleik og í sókninni, og var hann valinn í æfingahóp íslenska landsliðsins. Það er því mikill missir fyrir Gróttu fari svo að hann skrifi undir erlendis.

