Erlent

Sólfirrð náð í kvöld

Kjartan Kjartansson skrifar
Sólin sest yfir Istanbúl. Jörðin er nú í fjærsta punkti frá sólinni.
Sólin sest yfir Istanbúl. Jörðin er nú í fjærsta punkti frá sólinni. Vísir/EPA
Jörðin náði fjærsta punkti á sporbraut sinni frá sólinni á níunda tímanum í kvöld. Nú erum við tæplega fimm milljón kílómetrum fjær sólinni en þegar jörðin er í sólnánd.

Vakin er athygli á þessum árlegu tímamótum á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins. Braut jarðarinnar er sporöskjulaga og er hún því mislangt frá sólinni eftir því hvar hún er stödd á sporbrautinni.

Klukkan 20:11 að íslenskum tíma var jörðin á fjærsta punkti sporbrautarinnar, í 152 milljón kílómetra fjarlægð frá sólinni. Þegar jörðin er næst sólinni skilja um 147 milljón kílómetrar hnettina að.

Þegar jörðin er í sólfirrð ferðast hún hægar um braut sína en í sólnánd. Það veldur því að vor og sumar á norðurhveli jarðar eru örlítið lengri, 93 dagar hvor árstíð, en haust og vetur, 90 og 89 dagar hvor.

Sveifla mun skerpa skilin milli sumars og veturs

Eins og stendur er jörðin í sólfirrð nærri sumarsólstöðum á norðurhveli jarðar og í sólnánd nærri vetrarsólstöðum.

Reglubundin sveifla í afstöðu mönduls jarðar, svonefnd pólvelta, mun hins vegar verða til þess að eftir rúmlega tíu þúsund ár munu þessar tímasetningar hafa snúist við.

Þá verður jörðin fjærst sólu þegar vetur ríkir á norðurhveli og næst henni um hásumarið. Það mun valda skarpari skilum á milli árstíða með hlýrri sumrum og svalari vetrum á norðurhveli.

Nánar er hægt að lesa um möndulhalla jarðar og árstíðirnar á Stjörnufræðivefnum.

Uppfært 23:37 Upphaflega var fullyrt ranglega í fréttinni að 50 milljón kílómetra munur væri á fjarlægð jarðar og sólar við sólfirrð og nánd. Það rétta er að fimm milljón kílómetra munur er á fjarlægðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×