Körfubolti

Haukur Helgi: Gerðum þetta betur en síðast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Helgi skoraði 23 stig.
Haukur Helgi skoraði 23 stig. vísir/andri marinó
Ísland vann 15 stiga sigur á Belgíu, 85-70, á Akranesi þegar liðin mættust í annað sinn á þremur dögum. Íslenska liðið vann sjö stiga sigur, 83-76, þegar liðin mættust í Smáranum á fimmtudaginn en sigurinn í dag var öruggari og frammistaðan betri.

„Mér fannst þetta betra en síðast. Við gáfum svolítið eftir þegar við náðum áhlaupum í síðasta leik. Kannski hittum við betur í dag og það var meira jafnvægi í inni og úti leiknum. Við erum allir að slípast til,“ sagði Haukur Helgi Pálsson sem var stigahæstur í íslenska liðinu með 23 stig. Hann hitti úr átta af 10 skotum sínum í leiknum.

Varnarleikur Íslands var mjög sterkur í leiknum í dag og hann gerði Belgíu erfitt fyrir í sókninni.

„Við töluðum vel saman og skiptum vel. Við gerðum þetta betur en síðast. Þetta var leikur tvö svo við vissum kannski aðeins meira hvað þeir voru að gera,“ sagði Haukur Helgi sem segir að jákvæðu punktarnir séu mun fleiri en þeir neikvæðu eftir þessa fyrstu tvo æfingaleiki fyrir EM sem hefst í lok næsta mánaðar.

„Klárlega. Ég tek hatt minn ofan fyrir Skagamönnum fyrir umgjörðina. Þetta var fáránlega skemmtilegt og hvað þeir gerðu mikið úr honum,“ sagði Haukur Helgi sem kveðst bjartsýnn á framhaldið.

„Við förum til Rússlands 9. ágúst. Það verður eitthvað. Þetta er klárlega gott veganesti og við ætlum að halda áfram að verða betri,“ sagði Haukur Helgi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×