Repúblikanar hafa gert ítrekaðar tilraunir til þess að afnema Obamacare en það hefur verið þeirra helsta baráttumál undanfarin ár. Þeim hefur hins vegar gengið illa að koma sér saman um frumvarp að lögum sem geti komið í staðinn.
Tillagan sem var felld í öldungadeildinni með fimmtíu og einu atkvæði gegn fjörutíu og níu í nótt hefði afnumið Obamacare að hluta til.
Á meðal þeirra sem kusu gegn frumvarpinu var John McCain, öldungadeildarþingmaður repúblikana, sem greindist með heilaæxli í síðustu viku. Hann mætti í atkvæðagreiðslur um afnám Obamacare nánast beint af spítala.
Washington Post segir að Mike Pence, varaforseti, hafi í tuttugu mínútur reynt að sannfæra McCain um að kjósa með afnmámi Obamacare í þingsalnum en án árangurs. Pence var í salnum til að greiða atkvæði ef jafnmargir þingmenn væru með og á móti frumvarpinu.
Forsetinn sakar þingmenn um að bregðast þjóðinni
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, var ekki sáttur með sitt fólk og sagði að um vonbrigðastund væri að ræða. Hann hefur nú tekið málið á dagskrá.
Óvíst er hver næstu skref repúblikana verða. Þeir eru með meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings.
Trump tjáði sig um ósigurinn á Twitter seint í gærkvöldi. Sagði hann þrjá repúblikana og 48 demókrata hafa brugðist bandarísku þjóðinni. Endurtók hann hótun sína um að stjórn hans myndi láta Obamacare falla um sjálft sig áður en repúblikanar semdu lög sem kæmu í staðinn.
Skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt að afgerandi meirihluti bandarísks almennings er andsnúinn þeim frumvörpum sem repúblikanar hafa lagt fram til að koma í staðinn fyrir Obamacare.
Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá þegar John McCain greiddi atkvæði sitt gegn frumvarpinu um afnám Obamacare.