Eins og sást í myndasyrpu frá heimsókninni var greinilega mikið hlegið en Vísir vildi vita hvort forsetinn væri svona svakalega fyndinn. Þá kom í ljós að Fanndís Friðriksdóttir reyndi að skamma hann fyrir að mæta of seint.
„Það var einhver brandari um að hann hefði mætt aðeins of seint kallinn. Fanndís lét Guðna aðeins heyra það en hann svaraði á mjög fyndinn hátt þannig Fanndís gat ekkert svarað honum aftur,“ sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir við Vísi fyrir æfingu landsliðsins í gær.
Guðni var að sjálfsögðu á leiknum í Tilburg á þriðjudagskvöldið þar sem stelpurnar okkar töpuðu fyrir Frakklandi, 1-0. Eins og áður sat hann á meðal almennra stuðningsmanna í stúkunni og tók vel undir í Víkingaklappinu. Það sást vel í sjónvarpinu.
Stelpurnar mæta næst Sviss á Tjarnarhæðinni í Doetinchem á laugardaginn og þar verður forsetinn mættur eins og nokkur þúsund Íslendingar.
Viðtal við Guðbjörgu má sá hér að neðan.
Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook og Twitter.