Handbolti

Heitur Teitur: Þrír 10 marka leikir á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Teitur skoraði alls 46 mörk í fimm leikjum í riðlakeppninni.
Teitur skoraði alls 46 mörk í fimm leikjum í riðlakeppninni. mynd/facebook-síða ihf
Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson hefur farið mikinn á HM U-19 ára landsliða í handbolta sem fer fram í Georgíu þessa dagana.

Íslenska liðið hefur leikið vel á HM og vann alla fimm leiki sína í B-riðli.

Íslensku strákarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu eins marks sigur á Þjóðverjum, 28-27, í morgun. Orri Freyr Þorkelsson skoraði sigurmarkið úr vinstra horninu í þann mund sem leiktíminn rann út.

Teitur var markahæstur í íslenska liðinu í leiknum en hann skoraði 10 mörk, þar af fjögur af vítalínunni.

Teitur er jafnan öruggur á vítalínunni.mynd/hsí
Þetta var þriðji 10 marka leikur Teits á HM. Hann skoraði einnig 10 mörk í sigrunum á Japan og Síle. Selfyssingurinn skoraði „aðeins“ sjö mörk í stórsigrinum á Georgíu en gegn Alsír var hann með níu mörk.

Teitur skoraði alls 46 mörk í leikjunum fimm í B-riðli. Nítján þeirra komu af vítalínunni. Samkvæmt opinberri tölfræði mótsins hefur Teitur gefið 11 stoðsendingar en það er óhætt að fullyrða að þær séu miklu fleiri.

Teitur, sem verður ekki 19 ára fyrr en í næsta mánuði, var í lykilhlutverki hjá Selfossi í Olís-deild karla á síðasta tímabili. Hann skoraði 133 mörk í 25 deildarleikjum og var þriðji markahæsti leikmaður Selfoss á eftir Elvari Erni Jónssyni og Einari Sverrissyni.

Íslenska U-19 ára liðið mætir annað hvort Svíþjóð eða Barein í 16-liða úrslitum á HM á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×