Handbolti

Orri Freyr tryggði Íslandi sigur á Þýskalandi og sigur í riðlinum | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Orri Freyr (nr. 22) skoraði sigurmark Íslands.
Orri Freyr (nr. 22) skoraði sigurmark Íslands. mynd/hsí
Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 19 ára og yngri vann frábæran sigur á Þjóðverjum, 28-27, í síðasta leik sínum í B-riðli á HM í Georgíu í morgun.

Orri Freyr Þorkelsson skoraði sigurmarkið í þann mund sem leiktíminn rann út. Hann fór þá inn úr vinstra horninu og kom boltanum framhjá þýska markverðinum.

Þetta mark tryggði Íslandi ekki bara sigur í leiknum heldur einnig sigur í riðlinum. Íslensku strákarnir unnu alla fimm leikina sína. Það kemur í ljós seinna í dag hverjir mótherjar þeirra í 16-liða úrslitum verða.

Ísland byrjaði leikinn af fítonskrafti og eftir sex mínútur var staðan orðin 6-1, íslenska liðinu í vil. Þjóðverjar unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn og náðu að jafna fyrir hálfleik.

Ísland leiddi nær allan seinni hálfleikinn þótt munurinn væri aldrei mikill.

Ísland fékk mögulega til að komast tveimur mörkum yfir undir lokin en skot Bjarna Ófeigs Valdimarssonar geigaði. Þjóðverjar fóru í sókn og jöfnuðu í 27-27. En Íslendingar áttu lokasóknina og hún gekk fullkomlega upp eins og áður sagði. Lokatölur 28-27, Íslandi í vil.

Mörk Íslands:

Teitur Örn Einarsson 10, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 5, Sveinn Andri Sveinsson 3, Orri Freyr Þorkelsson 3, Örn Östenberg 3, Hannes Grimm 2, Birgir Már Birgisson 1, Úlfur Gunnar Kjartansson 1.

Varin skot:

Andri Scheving 17, Viktor Gísli Hallgrímsson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×