Fótbolti

Tífaldast í verði á aðeins einu ári | Barcelona að landa Dembele

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ousmane Dembele í búningi Dortmund.
Ousmane Dembele í búningi Dortmund. Vísir/Getty
Barcelona gengur betur að kaupa Ousmane Dembele frá Borussia Dortmund en félaginu hefur gengið að kaupa Philippe Coutinho frá Liverpool.

Liverpool vill ekki selja Philippe Coutinho en Borussia Dortmund viðist vera tilbúið að láta Ousmane Dembele frá sér fyrir 150 milljónir evra. BBC segir frá.

Dembele er því á góðri leið með að verða næstdýrasti knattspyrnumaður sögunnar á eftir Neymar sem Paris Saint Germain keypti frá Barcelona fyrir 220 milljónir evra. Paul Pogba mun því detta niður í þriðja sætið.

Ousmane Dembele var settur í bann hjá Dortmund á dögunum eftir að hann skrópaði á æfingu til að mótmæla því að þýska félagið hafnaði fyrsta tilboðinu frá Barcelona. Hann hefur ekki spilað með Dortmund síðan í þýska súperbikarnum 5. ágúst síðastliðinn.  Nú lítur einnig út fyrir það að hann hafi spilað sinn síðasta leik með þýska liðinu.

Ousmane Dembele er aðeins tvítugur og sló í gegn á síðasta tímabili. Hann var með 10 mörk og 21 stoðsendingu í þýsku deildinni. Dembele hefur spilað 7 landsleiki fyrir Frakka. Það efast enginn um hæfileika stráksins og það er vissulega spennandi fyrir hann að verða liðsfélagi Lionel Messi og Luis Suarez í framlínu Börsunga.

Dortmund fékk Dembele frá franska liðinu Rennes fyrir aðeins tólf mánuðum síðan. Hann var keyptur á 15 milljónir evra en er nú seldur á tífallt hærri upphæð aðeins einu ári síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×