Erlent

Rekja heyrnartap sendiráðsstarfsmanna til hljóðárásar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bandaríska sendiráðið í Kúbu var opnað aftur árið 2015 eftir að hafa verið lokað í um 50 ár.
Bandaríska sendiráðið í Kúbu var opnað aftur árið 2015 eftir að hafa verið lokað í um 50 ár. Vísir/Getty
Talið er að rekja megi heyrnartap minnst sextán starfsmanna bandaríska sendiráðsins á Kúbu til hljóðárásar sem gerð hafi verið á sendiráðið. BBC greinir frá.

Síðastliðið haust kvörtuðu sendiráðstarfsmenn yfir því að hafa tapað heyrn. Flestir þeirra höfðu nýverið tekið til starfa í sendiráðinu sem opnaði árið 2015 eftir áratugalangt frost í samskiptum Bandaríkjanna og Kúbu.

Heyrnartap sumra starfsmanna þótti það alvarlegt að senda þurfti þá aftur heim til Bandaríkjanna.

Rannsókn bandarískra embættismanna hefur leitt í ljós að líklegasta skýringin á heyrnartapi starfsmanna sé sú að einhvers konar tæki hafi verið beitt til þess að senda hljóðbylgjur sem skaddað geti heyrn þeirra sem verða fyrir þeim.

Málið er enn til rannsóknar hjá bandarískum yfirvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×