Erlent

Hand­tóku fimm ára dreng og föður hans og sendu til Texas

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Fulltrúi ICE heldur í skólatösku Liam Ramos í innkeyrslunni við heimili drengsins.
Fulltrúi ICE heldur í skólatösku Liam Ramos í innkeyrslunni við heimili drengsins. Mynd/Columbia Heights Public Schools

Innflytjenda- og tollaeftirlit Bandaríkjanna, ICE, tók fimm ára dreng í Minnesota höndum þegar hann var á leið sinni heim úr skólanum. Að sögn skólayfirvalda í Columbia Heights, úthverfi Minneapolis, voru drengurinn og faðir hans teknir höndum í innkeyrslunni heima hjá sér og sendir í varðhald í Texas.

Guardian greinir frá þessu og hefur eftir upplýsingum frá skóla drengsins sem heitir Liam Ramos. Liam, sem er nýlega orðinn fimm ára, er einn fjögurra barna í sama skólahverfi sem ICE hefur tekið höndum í aðgerðum stofnunarinnar á svæðinu á síðustu tveimur vikum. Þetta kom fram á blaðamannafundi skólastjóra í Columbia Heigths-hverfi í Minneapolis í gær.

Skólastjórinn Zena Stenvik segist hafa keyrt að heimili feðganna þegar hún frétti af aðgerðum ICE sem beindust gegn þeim. Þegar hún mætti á svæðið hafi bíll föðurins ennþá verið í gangi en feðgarnir hafi þegar verið á bak og burt. ICE-liði hafi tekið Liam út úr bílnum, leitt drenginn að útidyrahurðinni og látið hann banka til að láta hleypa sér inn. Það hafi verið gert í þeim tilgangi „að sjá hvort einhver annar væri heima, og þannig nota fimm ára barn sem beitu,“ líkt og haft er eftir Stenvik.

Annar fullorðinn einstaklingur á heimilinu hafi verið á svæðinu þegar atvikið átti sér stað og hafi biðlað til ICE-liða að fá að sjá um strákinn, svo hann þyrfti ekki að sæta varðhaldi. Á það hafi ekki verið fallist. Eldri bróðir Liams hafi síðan komið heim tuttugu mínútum síðar, en þá hafi faðir hans og bróðir verið horfnir.

Marc Proksch, lögmaður fjölskyldunnar, segir að hún sé með virkt mál um hæli í gangi í kerfinu og hefur sýnt gögn um komu feðganna til Bandaríkjanna um lögmæta landamærastöð. „Fjölskyldan gerði allt sem hún átti að gera samkvæmt þeim reglum sem fyrir liggja, sagði Prokosch. „Þau komu ekki hingað ólöglega. Þau eru ekki glæpamenn.“

Þeim hafi ekki verið vísað úr landi en lögmaðurinn segist telja að feðgarnir séu saman í varðhaldi. Skólinn birti tvær myndir af handtökunni, eina af drengnum þar sem hann stendur skelkaður með bláa húfu á höfði og litríka skólatösku á bakinu. Á hinni myndinni sést svartklæddur fulltrúi ICE fylgja drengnum að útidyrahurð heimilisins.

Í yfirlýsingu frá heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna segir að um hafi verið að ræða „hnitmiðaða aðgerð“ þar sem markmiðið hafi verið að handtaka föður drengsins sem stjórnvöld segja vera ólöglegan innflytjenda. ICE hafi ekki beint aðgerðum sínum gegn barni. Þá segir fulltrúi ráðuneytisins að faðirinn hafi reynt að hlaupa undan og hafi skilið barn sitt eftir. Því hafi einn fulltrúi ICE beðið með barninu á meðan annar hljóp föðurinn uppi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×