Erlent

Bíræfnir þjófar stálu rándýru víni í gegnum grafhvelfingu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Göng, eins og sjá má á þessari mynd, liggja víða nokkrum metrum undir Parísarborg.
Göng, eins og sjá má á þessari mynd, liggja víða nokkrum metrum undir Parísarborg. Vísir/Getty
Bíræfnir þjófar grófu sig inn í vínkjallara í París og stálu um 300 flöskum af rándýru víni. Þjófarnir boruðu sig inn í kjallarann í gegnum grafhvelfingarnar sem liggja neðanjarðar víða borginni. Guardian greinir frá.

Þjófnaðurinn átti sér stað aðfaranótt þriðjudags. Talið er að vínið sem stolið var sé virði allt að 250 þúsund evra, um 30 milljón íslenskra króna. Lögregla telur víst að þjófarnir hafi undirbúið þjófnaðinn afar vel.

Umfangsmikið gangnanet frá fyrri tímum má finna víða undir Parísarborg og er hluti af gangnanetinu grafhvelfingar þar sem finna má jarðneskar leifar um sex milljóna manna. Þjófarnir nýttu sér göngin, fundu nákvæma staðsetningu kjallarans og boruðu sig í gegn áður en að ránsfengurinn var borinn út í gegnum gangnanetið.

Lögregla telur víst að að þjófarnir bíræfnu hafi heimsótt bæði vínkjallarann og grafhvelfinguna áður en að látið var til skarar skríða, þeir hafi vitað nákvæmlega hvar ætti að bora í gegn.

Lítið eftirlit er með göngunum sem talið er að séu um 250 kílómetra löng, þegar allt er talið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×