Körfubolti

Sána í stað æfingar hjá Hlyni í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins við hlið Tryggva Hlinasonar í leiknum við Frakka.
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins við hlið Tryggva Hlinasonar í leiknum við Frakka. Vísir/Ernir
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, var ekki með á æfingu íslenska liðsins í keppnishöllinni í dag en kappinn glímir við veikindi.

Skrokkurinn er samt í lagi hjá Hlyni og sú ákvörðun að skilja hann eftir upp á hóteli var bara til að auka líkurnar að hann nái sér góðum af þessum veikindum fyrir leikinn á morgun.

Hlynur tók reyndar óvenjulítið þátt í leiknum á móti Frökkum í gær og var stiga- og frákastalaus langt fram eftir leik. Það er líklegt að veikindin hafi verið að trufla hann þar.

Hlynur er að glíma við kvef og reyndi að ná því úr sér í dag. Samkvæmt heimildum Vísis þá skellti landsliðsfyrirliðinn sér í sána til að hjálpa við „hreinsunarstarfið“.

Það lá beinast við að prófa gufubaðið á þeim stað þaðan sem það er ættað.

Nú treystum við á það að finnska sánan hafi góð áhrif á landsliðsfyrirliðann og komi honum í gang fyrir morgundaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×