Körfubolti

Jón Arnór: Hræðileg stemning á leiknum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Arnór með boltann í leiknum í kvöld.
Jón Arnór með boltann í leiknum í kvöld. vísir/eyþór
Jón Arnór Stefánsson, einn af lykilmönnum KR, sendi stuðningsmönnum liðsins tóninn eftir tap KR í Evrópubikarnum gegn Belfius á heimavelli í kvöld.

„Þetta var bara ekki nægilega gott. Það er örugglega auðveldlega hægt að kenna mörgu um, en við vorum bara ekki nægilega góðir í okkar aðgerðum,” sagði Jón Arnór í samtali við Vísi í leikslok.

„Við töpuðum of mörgum boltum klaufalega. Við vorum langt frá okkar besta í dag, en mér fannst líka bara vera léleg stemning á leiknum. Mér fannst þetta ekki nægilega gott.”

Stúkan í kvöld var nokkuð þéttsetinn, en ekki heyrðist mikið frá henni. Jón Arnór var mjög ósáttur með stemninguna og lét heyra í sér.

„Við vorum að spila Evrópuleik, stúkan er dauf og hræðileg stemning á leiknum og hjá okkur væntanlega líka. Ég er ekki ánægður með það og ef við ætlum að vinna fimmta titilinn í röð þá verðum við að fá góðan stuðning.”

„Fólkið er mjög góðu vant og það þarf aðeins að hrista upp í þessu. Það þarf betri stuðning og það þarf ekki bara að fagna körfum; það er hægt að garga okkur í gang og gefa okkur búst því við þurfum á því að halda eins og önnur lið.”

Umfjöllun:KR - Belfius 67-88 | Erfitt verkefni bíður KR í Belgíu

Sóknarleikur KR var oft á tíðum stirður og óagaður. Aðspurður hvort leikur liðsins hafi verið stirður svaraði hann ákveðinn:

„Þetta var bara lélegt. Við spiluðum ekki okkar besta leik og áttum fá svör gegn þeirra sóknarleik. Þeir voru að keyra mikið að körfunni og hittu öllu fyrir utan. Þeir sprengu þetta bara upp þegar þeir vildu og á sama tíma vorum við skrefinu á eftir.”

„Við vorum heldur ekki nógu agaðir og vel stilltir í vörninni. Við erum búnir að vera stutt saman og við munum auðvitað bæta okkur leik, en það er bara vika í Belgíu. Við þurfum að bæta okkar leik og slípa okkur varnar- og sóknarlega,” en er þetta einvígi búið?

„Þetta er erfitt. Við ætlum að fara til Belgíu og gera betur. Við erum að fara inn í langt tímabil hér heima og að berjast um titla. Við erum að koma okkur í gang og við erum hér til að bæta okkur. Við munum fyrst og fremst nýta þessa leiki í það,” sagði ákveðinn Jón Arnór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×