Innlent

Falsa nektarmyndir af ungum íslenskum stúlkum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Falsaðar nektarmyndir af ungum íslenskum stúlkum  eru nú algeng sjón í á vefsíðu sem dreifir nektarmyndum af unglingum. Yfir sjö hundruð nektarmyndir voru á sérstöku íslensku svæði á vefsíðunni í júlí.

Á fagráðstefna um stafrænt ofbeldi, sem haldin var í dag, sagði Hildur Friðriksdóttir, meistaranemi við Háskólann á Akureyri, frá nýjustu vendingum í rannsókn sinni sem beinist að tiltekinni vefsíðu. Undanfarin þrjú ár hefur hún rannsakað síðuna sem hefur að geyma sérstakt íslenskt vefsvæði þar sem einstaklingar óska eftir nektarmyndum af unglingum, langt undir lögaldri. 2062 ljósmyndir voru á íslenska svæðinu í júlí og þar af voru 730 nektarmyndir, langoftast af stúlkum.

„96 prósent þolenda voru stúlkur í þessari rannsókn minni þannig þetta er mjög augljóslega kyndbundin vandi og ef að okkur á að takast að komast að rót vandans held ég að það sé mikilvægt að við tæklum hann á þeim forsendum.“

Hildur bendir á að í langflestum tilfellum sé um persónugreinanlegar upplýsingar að ræða. „Til að hámarka skaðann fyrir viðkomandi. Það var mjög algengt að það væru sett í nöfn þolanda.  Það var í rúmlega helmingi tilfella. Það er svolítið um það að það sé verið að setja inn í hvaða skóla viðkomandi er en þær eru flestar á grunn- eða framhaldsskólaaldri. Það er líka algengt að það sé verið að setja linka yfir á prófíla viðkomandi á Facebook eða Instagram,“ segir Hildur.   

Þá er algengt að beðið sé um nektarmynd af einhverjum ákveðnum stúlkum í skiptum við aðra mynd.

Hildur segist hafa tekið eftir breytingum á vefsíðunni frá því hún fyrst fór að rannsaka hana árið 2014. „Þarna er tiltölulega algengt að menn séu að setja inn myndir af stúlkum og óska eftir því að myndin sé gegnumlýst og þá greinilega eru menn að nota forrit til að falsa nektarmyndir af einstaklingum þannig það er líka verið að nota þetta til að dreifa fölsum nektarmyndum,“ segir Hildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×