Innlent

Met slegið í magni úrgangs

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Það er óhætt að segja að það sé nóg að gera hjá Sorpu en úrgangur hefur aldrei verið meiri í 28 ára sögu fyrirtækisins.

Magn úrgangs sem berst til Sorpu á höfuðborgarsvæðinu er í fyrsta skipti meira en fyrir hrun að sögn Björns Halldórssonar, framkvæmdastjóra Sorpu.

„Það er úrgangur eins og litað timbur eða grófur úrgangur sem er þá kannski húsgögn eða dýnur, framkvæmdaúrgangur. Það er verið að skipta um innréttingar og svo framvegis. Við sjáum til dæmis á þessu ári þá er aukningin í þessum úrgangsflokki yfir 40%, sem er rosalega mikið,“ segir Björn.

Þá sé einnig aukning í öðrum úrgangsflokkum. „Það er skoðað, eins og endurvinnslustöðvarnar hér á höfuðborgar svæðinu, þá er aukningin frá árinu 2010 yfir 80%. Þetta er veruleg breyting, mesta aukningin hefur orðið undanfarin ár,“ segir Björn.

Björn tengir aukninguna  við batnandi efnahag þjóðarinnar. Þetta er bara góðærið, það kemur fram á þessum stað,“ segir Björn.

Þá hafi fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu einnig áhrif. Björn segir að koma verslunarkeðjunnar Costco til landsins hafa áhrif á sorpmagn.

„Þó að við getum kannski illa sannað það þá hefur umbúðamagn aukist og síðan er svo ódýr rafmagnstæki sem komu til. Allt í einu virtust allir Íslendingar þurfa nýjan ísskáp,“ segir Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×