Allir rafmagnsnotendur eyjunnar eru enn án rafmagns og fjarskiptakerfi liggja að miklu leyti niðri þrátt fyrir að tæplega vika sé liðin frá því að María gekk yfir eyjuna sem fjórða stigs fellibylur. Fátt bendir til að rafmagn komist aftur á í bráð, að sögn CNN-fréttastofunnar.
Matvæli og lyf eru einnig að verða af skornum skammti, ekki síst í byggðum inn til lands sem hafa einangrast vegna skemmda á vegum. Sjúkrahús hafa þurft að keyra á dísilvararafstöðvum en eldsneytisskortur er einnig yfirvofandi. Þá eru margir án drykkjavatns.
Púertó Ríkó er bandarískt yfirráðasvæði og landsmenn teljast bandarískir þegnar þótt þeir hafi ekki kosningarétt í bandarískum kosningum.
Gagnrýnd fyrir sein viðbrögð
Almannavarnir Bandaríkjanna hafa sent tíu þúsund starfsmenn til eyjunnar ásamt neyðargögnum. Skemmdir sem hafa orðið á innviðum eins og höfnum og flugvöllum hafa hins vegar tafið hjálparstarf.
Ríkisstjórinn Ricardo Castelló hefur óskað eftir frekari aðstoð frá alríkisstjórn Bandaríkjanna og það fljótt.

Forsetinn og alríkisstjórnin hafa verið gagnrýnd fyrir að taka ástandið á Púertó Ríkó ekki eins föstum tökum og í Texas og Flórída þegar fellibyljirnir Harvey og Irma gengu þar yfir.
Taki fólk fram yfir skuldir
Ekki síst vakti það armæðu þegar Trump tísti loksins um ástandið í gær eftir að hafa þagað þunnu hljóði um það og kosið frekar að beina kröftum sínum að því að efna til illdeilna um mótmæli ruðningsmanna.
Trump talaði í tístunum um miklar skuldir Púertó Ríkó og að á þeim þyrfti að taka. Púertó Ríkó lenti í greiðsluþroti fyrr á þessu ári. Stjórnvöld þar óskuðu eftir fjögurra vikna framlengingu á fresti sem þau höfðu til að standast skilmála um greiðsluþrotið. Skuldir Púertó Ríkó nema 72 milljörðum dollara, samkvæmt frétt Reuters.
Sú ákvörðun Trump að blanda fjármálum Púertó Ríkó saman við neyðarástandið þar féll ekki í frjóan jarðveg hjá Carmen Yulin Cruz, borgarstjóra höfuðborgarinnar San Juan. Hún lýsti ástandinu á eyjunni sem mannúðarástandi við CNN í dag.
„Maður setur ekki skuldir ofar fólki, maður setur fólk ofar skuldum,“ sagði Yulin.