Körfubolti

Kristófer fær hrós á Filippseyjum: Kannski einmitt það sem liðið þurfti fyrir úrslitakeppnina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox.
Kristófer Acox. vísir/óskaró
Kristófer Acox gat ekki hjálpað KR-ingum í Evrópukeppninni en landsliðsframherjinn hefur aftur á móti hjálpað liði Star Hotshots mikið á Filippseyjum.

Frammistaða Kristófers í fyrstu leikjum sínum með Star Hotshots liðinu kom honum í fimm manna úrvalshóp yfir bestu frammistöðu vikunnar. Þetta kemur fram á heimasíðu deildarinnar.

Star Hotshots náði heimavallarétti í úrslitakeppninni þökk sé tveimur sigurleikjum í röð þar sem Kristófer skilaði flottum tölum.

„Hann er kannski ekki að skila svakalegum tölum en Kristófer Acox var einmitt það sem liðið þurfti fyrir úrslitakeppnina. Þessi fyrrum leikmaður hjá Furman háskólanum hjálpaði Hotshots-liðinu að vinna báða leiki sína í vikunni og tryggja sér fjórða sætið í deildinni. Næst á dagskrá eru leikir á móti NLEX Road Warriors og þar er meira undir,“ segir í umfjölluninni um Kristófer á heimasíðu PBA deildarinnar.

Kristófer var með 19 stig, 15 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolna bolta og 2 varin skot í fyrri leiknum í vikunni en í þeim seinni var íslenski landsliðsmaðurinn með 14 stig, 10 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta.

Tveir góðkunningjar íslenska körfuboltans eru líka í úrvalsliðinu eða þeir JNathan Bullock, sem var á sínum tíma Íslandsmeistari með Grindavík og Terrence Watson sem gerði góða hluti með Haukum fyrir nokkrum árum.

Úrslitakeppnin á Filippseyjum hefst á þriðjudaginn og mætir Hotshots liði NLEX í átta liða úrslitunum. Star Hotshots í undanúrslit er með heimaleikjarétt og þarf aðeins að vinna einn leik til að komast áfram en NLEX, sem endaði neðar, þarf hinsvegar að vinna tvo leiki til að komast í undanúrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×