Innlent

Skoða díselrafstöðvar á Akureyri

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Akureyringar íhuga nú að koma upp díselrafstöðvum við bæinn svo unnt verði að anna raforkuþörf í Eyjafirði til frambúðar. Bæjarstjórinn Eiríkur Björn Björgvinsson segir stöðu raforkumála á svæðinu grafalvarlega. Bæjarstjórn Akureyrar ályktaði um málið á fundi sínum á mánudag. Þar kemur fram að ástand raforkumála á svæðinu sé viðkvæmt og hamlandi til atvinnuuppbyggingar. Verði ekki hægt að tryggja raforku inn í Eyjafjörð með öðrum hætti á næstu þremur árum sjái bæjarstjórn ekki annan möguleika en að reistar verði díselrafstöðvar.

Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, segir dreifingaraðilann Landsnet í erfiðri stöðu, enda hafi fyrirtækið mætt mikilli mótstöðu við lagningu raflína í formi málsókna. Jón segir þó löggjöf á sviðinu stærstu hindrunina og hana þurfi að endurskoða frá grunni. Eiríkur vonast til að hægt verði að fara aðrar leiðir, en segir að bæjarstjórn sé þó alvara með tillögunni ef ekki glitti í aðrar lausnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×