Frétt NBC um að Mike Pence, varaforseti, hefði þurft að tala Tillerson ofan af því að segja af sér í sumar olli miklum titringi í Washington-borg í dag. Tillerson boðaði til blaðamannafundar í skyndi þar sem hann bar fréttirnar til baka. Hann neitaði þó ekki að hafa kallað forsetann „fávita“ eins og haldið var fram í fréttinni.
Utanríkisráðuneyti hans gaf frá sér yfirlýsingu nú í kvöld þar sem fullyrt var að Tillerson hefði ekki haft slík orð um Trump enda notaði hann ekki slíkt orðbragð.
Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, sagði fréttamönnum í dag að Trump hefði ekki rætt við Tillerson í dag. Hann bæri enn traust til hans, að því er segir í frétt Reuters.
Trump hefur virst grafa undan Tillerson undanfarið. Þegar Tillerson greindi frá því að bandarísk stjórnvöld héldu opnum möguleikum á viðræðum við stjórnvöld í Norður-Kóreu tísti Trump að hann hefði sagt utanríkisráðherranum að það væri tilgangslaust.
Segir Tillerson einn þeirra sem kemur í veg fyrir glundroða
Bob Corker, öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Tennessee, harmaði í viðtali í dag að Tillerson hefði ekki fengið þann stuðning sem honum bæri frá Hvíta húsinu. Tillerson væri einn þeirra sem kæmu í veg fyrir glundroða í Bandaríkjunum.
„Ég tel að Tillerson ráðherra, [James] Mattis [varnarmála]ráðherra og [John] Kelly starfsmannastjóri [Hvíta hússins] séu mennirnir sem hjálpa til við að halda landinu okkar frá glundroða,“ sagði Corker sem ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs á næsta ári.
Þegar hann var spurður nánar út í þau ummæli gaf Corker í skyn að ákveðnir einstaklingar innan Hvíta hússins ynnu gegn starfi Tillerson, Mattis og Kelly.
„Þeir vinna vel saman að því að tryggja að sú stefna sem við kynnum fyrir öðrum þjóðum sé traust og skipulögð. Það er annað fólk innan ríkisstjórnarinnar sem gerir það ekki að mínu mati.“
Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Corker um Tillerson utanríkisráðherra.
.@SenBobCorker: "I think Sec. Tillerson, Sec. Mattis and Chief of Staff Kelly are those people that help separate our country from chaos." pic.twitter.com/NjuRX59s6A
— CSPAN (@cspan) October 4, 2017