Handbolti

Verður yngri Hansen-bróðirinn samherji Rúnars á næsta tímabili?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Henrik Toft Hansen hefur leikið rúmlega 100 landsleiki fyrir Danmörku.
Henrik Toft Hansen hefur leikið rúmlega 100 landsleiki fyrir Danmörku. vísir/getty
Svo gæti farið að danski landsliðsmaðurinn Henrik Toft Hansen verði samherji Rúnars Kárasonar hjá Esbjerg á næsta tímabili.

Hansen, sem hefur leikið með Flensburg síðan 2015, hefur verið orðaður við Ribe-Esbjerg í dönskum fjölmiðlum.

Í samtali við JydskeVestkysten sagði Hansen óvíst hvert framhaldið yrði hjá sér.

„Ég get ekki svarað til um það en það er rétt að samningur minn við Flensburg rennur út í sumar. Við sjáum hvað setur. Ég held öllum möguleikum opnum en tímabilið er bara rétt byrjað,“ sagði Hansen.

Auk Flensburg hefur línumaðurinn öflugi leikið með Mors-Thy, Aalborg, AG Köbenhavn og Bjerringbro-Silkeborg í heimalandinu. Þá var hann tvö ár í herbúðum Hamburg í Þýskalandi.

Hinn þrítugi Hansen varð Evrópumeistari með Dönum 2012 og Ólympíumeistari 2016. Hann er yngri bróðir landsliðsmannsins René Toft Hansen.

Rúnar Kárason hefur skrifað undir þriggja ára samning við Ribe-Esbjerg og gengur í raðir félagsins næsta sumar. Ribe-Esbjerg er í neðri hluta dönsku úrvalsdeildarinnar en ætlar sér stóra hluti á næstu árum.


Tengdar fréttir

Rúnar til Ribe-Esbjerg eftir tímabilið

Rúnar Kárason, landsliðsmaður í handbolta, gengur í raðir Ribe-Esbjerg eftir tímabilið. Hann hefur gert þriggja ára samning við danska úrvalsdeildarfélagið.

Er ekki að kasta inn handklæðinu

Landsliðsmaðurinn Rúnar Kárason færir sig um set til danska félagsins Ribe-Esbjerg eftir tímabilið. Hann hefur fengið fá tækifæri með Hannover-Burgdorf en segir að það sé ekki eina ástæðan fyrir vistaskiptunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×