Innlent

Að minnsta kosti sjö leikskólar á höfuðborgarsvæðinu lokað deildum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Að minnsta kosti sjö leikskólar í Reykjavík og í Kópavogi hafa þurft að grípa til þess á síðustu tveimur vikum að loka deildum vegna manneklu. Leikskólastjórar segja að ástandið hafi ekki verið verra síðan fyrir hrun.

Afar illa hefur gengið að ráða starfsfólk í leikskóla og hafa leikskólar á höfuðborgarsvæðinu þurft að grípa til ýmissa úrræða á undanförnum vikum.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg þurfti að grípa til þess neyðarúrræðis að stytta opnunartíma í átta leikskólum í síðustu viku – með því að opna síðar að morgni eða loka fyrr. Á tveimur leikskólum hefur verið gripið til þess að loka deildum þannig að hvert barn sé heima 3 daga í mánuði. Staðan er svipuð í Kópavogi en í síðustu viku þurftu fjórir leikskólar að loka deildum hjá sér. Tveir voru með lokaðar deildir í gær og í dag.

Þá tóku sumir leikskólar þá ákvörðun í haust, þegar sá í hvað stefndi, að opna ekki allar deildir þessa önnina. Leikskólinn Sæborg er einn þeirra en að sögn Soffíu Þorsteinsdóttur, leikskólastjóra, gengur illa að ráða starfsfólk.

Inga Jóna Hilmisdóttir, aðstoðarleikskólastjóri á Sunnuás, tekur í sama streng en hún hefur þurft að loka deildum.

Hún segir að ástandið sé slæmt. Hún hafi auglýst eftir starfsfólki en að fáir sæki um. Þá sé ómögulegt sé að fá menntaða leikskólakennara.

Hún telur að það séu fyrst og fremst vinnuaðstæður sem valdi manneklunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×