Innlent

Björgunarsveitarmenn önnum kafnir í ófærðinni á Akureyri

Birgir Olgeirsson skrifar
Akureyri nú á ellefta tímanum í morgun.
Akureyri nú á ellefta tímanum í morgun. Hólmkell Hreinsson
Það hefur verið í nógu að snúast fyrir björgunarsveitarmenn á Akureyri í morgun. Þeir tóku daginn heldur snemma þegar þeir voru ræstir út um klukkan fjögur í nótt til að aðstoða vegfarendur sem sátu í föstum bíl nærri Krossastöðum, norðan megin við Akureyri. 

Björgunarsveitarmenn sneru til baka á Akureyri eftir það útkall og ákváðu í kjölfarið að taka hring um hverfin í Þorpinu. Voru þeir í því aðstoða íbúa þar á milli klukkan sex og átta í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg hafa þeir í raun ekki komist heim eftir þetta útkall í nótt því þeir hafa einnig aðstoðað ökumenn víðs vegar um bæinn sem sitja fastir og voru einnig boðaðir í útkall vegna báts sem var að losna frá bryggju.

Frá Akureyri í morgun.Hólmkell Hreinsson
Björgunarsveitarmenn í Eyjafirði aðstoðuðu einnig vegagerðarbíl sem sat fastur á Lyngdalsheiði rétt fyrir klukkan sjö í morgun. Þegar björgunarsveitarmenn mættu á vettvang varð þeim ljóst að stórvirk tæki þurfti til að losa bílinn og var því bílstjóra og farþega vegagerðarbílsins komið í burtu.

Fallegt um að lítast á Akureyri.Kristín S. Sigursveinsdóttir
Ásamt því að sinna mönnuðum lokunum á vegum eru björgunarsveitarmenn á Austurlandi þessa stundina að aðstoða við leit að hrossum fyrir utan Egilsstaði.

Landsbjörg segir að frá miðnætti hafi björgunarsveitarmenn verið að störfum víðs vegar um landið.

Allt skólahald liggur niðri á Akureyri þessa stundina og er mikil ófærð þar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×