Búist er við 17 prósent aukningu sjúkraflugs á landinu á þessu ári að sögn Slökkviliðsins á Akureyri sem hefur umsjón með þeim hluta sjúkraflutninga á landinu.
Nú þegar hafa 763 sjúkraflug verið farin og 811 sjúklingar fluttir með þeim. Áætlað er að sjúkraflug verði rúmlega átta hundruð á þessu ári.

„Staðan núna er sú að við erum fimm á vakt hér á dagvöktum, fjórir til að manna tvo bíla og einn til að sinna flugi. Þegar upp koma sjúkraflug á næturvöktum þarf oft að styrkja sjúkrabílavaktina með því að ræsa mann af frívakt með tilheyrandi kostnaði fyrir okkur,“ bætir Ólafur við.
Oddur Ólafsson, forstöðulæknir svæfingalækninga Sjúkrahússins á Akureyri sem er yfir sjúkraflugi, segir þá stöðu sem upp er komna núna sýna mikilvægi þess að tvær vélar séu til taks. „Ég gæti séð fyrir mér aðra vél koma inn á dagvaktir, frá morgni til kvölds á virkum dögum, til að annast sjúkraflutninga í minni forgangi,“ segir Oddur. „Sjúkraflutningar hafa aukist, bæði á landi og í lofti. Því þarf að setja skýrari ramma utan um sjúkraflugið og skilgreina hvaða þjónustu á að veita, hver ábyrgð og hverjar skyldur aðila í sjúkraflugi eru og hvernig eftirlit með þjónustunni á að vera.“