Innlent

Fólk fast í flug­vélum á Kefla­víkur­flug­velli vegna veðurs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vélar Icelandair frá Norður-Ameríku lentu í Keflavík nú á tíunda tímanum.
Vélar Icelandair frá Norður-Ameríku lentu í Keflavík nú á tíunda tímanum. vísir/anton brink
Níu flugvélar hafa lent á Keflavíkurflugvelli í morgun og fleiri eiga eftir að bætast við fljótlega. Staðan er hins vegar þannig að ekki hefur verið hægt að hleypa farþegum frá borði vegna veðurhamsins að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa ISAVIA.

Afar slæmt veður hefur verið á Keflavíkurflugvelli í morgun og mjög hvasst þar sem hviður hafa farið upp í tæplega 40 metra á sekúndu.

„Staðan er sem sagt sú að þær eru allar lentar og komnar upp að flugstöðinni en það er ekki ennþá komin aðstaða til að hleypa fólki frá borði. Þetta veltur allt á vindhraðanum hvort hægt sé að tengja ranana og hleypa fólki frá borði. Það er því verið að fylgjast með vindhraðamælum og bíða eftir því að veður sé það skaplegt að það sé hægt að fara í það og þá verður það gert strax,“ segir Guðjón í samtali við Vísi.

Engar vélar hafa tekið á loft frá Keflavíkurflugvelli í morgun og bíður því fjöldi fólks í flugstöðinni eftir að komast af stað.

Veðrið náði hámarki upp úr klukkan átta í morgun og samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands ætti veðrið að vera gengið niður að mestu um hádegisbil.


Tengdar fréttir

Lægðirnar koma á færibandi í vikunni

Óveðrið sem nú gengur yfir höfuðborgarsvæðið náði hámarki upp úr klukkan 8 í morgun að sögn Árna Sigurðssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×