„Þetta byrjar með snjókomu en síðan gengur þetta yfir í slyddu og síðan rigningu,“ segir Helga en hvít jörð var á höfuðborgarsvæðinu og víða annars staðar í morgun. Snjómokstur á götum er þegar hafinn.
„Ég á von á að snjórinn fari að mestu í dag. Þetta rignir vonandi vel niður og skilur vonandi ekki eftir sig klaka. Það gæti auðvitað orðið mjög hált þegar byrjar að rigna í dag. Það má vara við því,“ segir Helga.
Hún segir að búast megi við talsvert mikilli rigningu suðaustanlands og á sunnanverðum Austfjörðum. Þar byrjar þetta með snjókomu og svo fer yfir í rigningu. Það má búast við að verði einhverjir vatnavextir í kvöld. Allir sem eru á ferðinni ættu því að fylgjast vel með. En það ætti að hlána á landinu öllu í dag.“
Á morgun er búist við mun hægari vindi og að það verði úrkomuminna, en á aðfaranótt þriðjudags hvessir aftur úr suðri með rigningu víða um land.
