Smálægð, sem er í myndun vestur af landinu þessa stundina, mun í kvöld valda allhvössum eða hvössum vindi af suðri og síðar vestri. Að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofunni mun vindinum fylgja snjókoma og sums staðar slydda. Frostið verður á bilinu 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.
Einhvers staðar kann þó að þiðna tímabundið í nótt, ekki síst við suðvestur- og suðurströndina. Kann þannig að vera frostlaust um tíma. Það mun hins vegar kólna aftur á morgun þegar vind lægir og skilin fara austur af landinu.
Gengur svo í suðaustan hvassviðri á sunnudag og svo gæti farið að um storm yrði að ræða. Samfara honum mun rigna og hlýna. Gert er síðan ráð fyrir áframhaldandi hlýindum næstu daga þar á eftir, þ.e.a.s. í byrjun næstu viku.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Vestlæg og síðar breytileg átt, 10-18 m/s, hvassast á annesjum N-til og víða snjókoma, en slydda við SV-stöndina. Lægir og rofar víða til um kvöldið. Frost víða 0 til 5 stig, en frostlaust allra syðst.
Á sunnudag:
Gengur í suðaustan 15-23 m/s með slyddu og síðar rigningu, hvassast SV-til, en úrkomulítið á N- og A-landi. Hlýnandi veður.
Á mánudag og þriðjudag:
Áframhaldandi suðlægar áttir, hvassar með köflum, milt og vætusamt veður, einkum S- og V-til.
Á miðvikudag:
Suðlæg átt með skúrum eða éljum og smám saman kólnandi veður.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir vaxandi austanátt en úrkomulítið fram á kvöld. Hlýnar aftur.
Hlýnar eftir hvassviðri
Stefán Ó. Jónsson skrifar
