Grímur segir að það ár hafi aðstandendur hátíðarinnar gert ráð fyrir um 10 þúsund gestum en að 8.500 gestir hafi mætt. Í ársreikningnum kemur fram að tekjurnar hafi numið 215,5 milljónum króna samanborið við 202,2 milljónir árið áður.

Þessi rekstrarniðurstaða varð að sögn Gríms til þess að seglin voru dregin saman í fyrra. Til að ná niður kostnaði hafi færri bönd spilað 2017 auk þess sem tónlistarhúsið Harpa hafi verið tekið út sem tónleikastaður, svo dæmi séu tekin.
„Við skárum niður kostnaðinn um rúmlega 80 milljónir,“ útskýrir Grímur og bætir við að niðurskurðurinn hafi orðið til þess að reksturinn í fyrra hafi verið í jafnvægi.
„Það er mjög gott. Við gætum ekki rekið þetta í tómum mínus,“ segir Grímur og segir framtíð Airwaves bjarta.