Innlent

Búið að opna Hellisheiði, Mosfellsheiði og Þrengsli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá lokunum við Rauðavatn í dag.
Frá lokunum við Rauðavatn í dag. vísir/vilhelm
Uppfært klukkan 07:50

Búið er að opna veginn um Hellisheiði, Mosfellsheiði og Þrengsli. Þar er þó einhver hálka og eru ökumenn beðnir um að hafa varann á. Að sama skapi er búið að opna veginn um Lyngdalsheiði.

Verið er að moka flesta vegi sem snjóað hefur á síðastliðinn sólarhring. Þá er hálka á Suðurstrandavegi og þæfingsferð á vegum við sunnanvert Þingvallavatn. Grindavíkurvegur er enn opinn þó þar sé einnig hálka, rétt eins og á Reykjanesbraut.

Vegfarendur eru beðnir um að fylgjast vel með veðurspám.

Upprunalegu fréttina má sjá hér að neðan.

Veður fer hratt versnandi á Hellisheiði og Þrengslum og er búist við að veður versni enn frekar þegar líður á nóttina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi sem send var á miðnætti.

Vegagerðin hefur af þeim sökum ákveðið að hætta fylgdarakstri um Suðurlandsveg sem snjóruðningstæki hafa sinnt með hléum undanfarnar klukkustundir.

Lokun á Suðurlandsvegi um Hellisheiði og Sandskeið mun því verða áfram sem og lokun á Þrengslavegi og er ráðgert að reyna að opna vegina er veður gengur niður undir morgun.

Björgunarsveitir sinna lokunum í umboði lögreglu og Vegagerðarinnar.

Suðurstrandavegur er opinn og verður allt kapp lagt á að halda honum opnum. Búast má þó við að veður komi til með að versna þar í nótt.

Lögregla biður vegfarendur um að virða lokanir lögreglu og vegagerðarinnar. Nánari upplýsingar verða veittar samhliða því sem þær berast eða veður og færð breytist.

Fylgjast má með upplýsingum um færð og veður í nótt á vegagerdin.is og vedur.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×