Innlent

Rignir, bætir í vind og kólnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er útlit fyrir mikla rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum í allan dag.
Það er útlit fyrir mikla rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum í allan dag. Vísir/Stefán
Það mun blása úr suðri í dag. Veðurstofan gerir ráð fyrir hvassviðri eða stormi austan megin á landinu, en að það verði strekkingur eða allhvasst vestantil.

Þá er útlit fyrir mikla rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum í allan dag og eru líkur á vatnsflóðum á þeim slóðum. Þarna styttir ekki upp fyrr en seint í kvöld eða í nótt. Gul viðvörun er í gildi fyrir Austurland að Glettingi en appelsínugular viðvaranir á Austfjörðum og Suðausturlandi.

Eitthvað mun verða vart við vætu í öðrum landshlutum einnig. „Sunnanáttin hefur fært hlýtt loft yfir landið og til dæmis hefur í nótt í hnjúkaþey mælst rúmlega 10 stiga hiti á Akureyri, Seyðisfirði og í Vopnafirði,“ segir í færslu veðurfræðings. Hitinn verður á bilinu 4 til 9 stig.

Einnig má gera ráð fyrir suðvestan strekkingi eða allhvössum vind á morgun og því fylgi él eða skúrir. Það léttir svo til um landið norðaustanvert. Hitinn þokast niðurávið og verður ekki mikið yfir frostmarki.

Úrkoman verður orðin samfelldari annað kvöld, það bætir í vindinn og fer að kólna meira. Aðfaranótt sunnudags og á sunnudaginn mun því snjóa nokkuð víða um land samfara stífum vindi.

Að sögn veðurfræðings Veðurstofunnar gera langtímaspár síðan ráð fyrir að norðanátt ráði ríkjum í næstu viku með frosti á öllu landinu og ofankomu norðanlands.



Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Suðvestan og sunnan 10-18 m/s og él eða skúrir, en léttskýjað á norðaustanverðu landinu. Samfelldari rigning, slydda eða snjókoma á Suður- og Vesturlandi undir kvöld. Hiti 0 til 4 stig.

Á sunnudag:

Sunnan og suðvestan 15-23 m/s aðfaranótt sunnudags og víða slydda eða snjókoma. Suðvestan 13-20 á sunnudaginn með dimmum éljum, en léttir til norðaustan- og austanlands eftir hádegi. Kólnandi veður, frost 1 til 7 stig um kvöldið. 

Á mánudag:

Norðlæg átt og víða él, en úrkomulítið síðdegis á sunnanverðu landinu. Frost 1 til 10 stig. 

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:

Norðlæg átt og snjókoma eða él norðantil á landinu, annars úrkomulítið. Frost 2 til 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×